Kvennahlaupið

Hið árlega Sjóvár kvennahlaup ÍSÍ verður haldið í tengslum við 17. júní hátíðahöldin í Waterloo á lóð Skandinavíska skólans (Square d’Argenteuil 5, 1410 Waterloo). Hlaupið verður sunnudaginn 17. júní og hefst kl. 13. Hlaupnir verða 3 km sem ætti að vera vegalengd við flestra hæfi. Við minnum á að þrátt fyrir heiti hlaupsins eru karlmenn á öllum aldri velkomnir!

Þátttakendur skrái sig á netfang félagsins (islandsfelag@gmail.com) og greiði skráningargjald, 9 evrur á mann (bolur og verðlaunapeningur innifalin) inn á reikning Íslandsfélagsins við skráningu, ING 310-1074359-73. Ekkert er greitt fyrir kerrubörn sem ekki fá bol. Skráningu lýkur föstudaginn 25. maí!

Munið að tilgreina bolastærð en að þessu sinni munu bolirnir víst verða fallega rauðir (í viðhengi sjást bolastærðir). Bolastærðir

Að hlaupi loknu hefjast 17. júní hátíðahöldin, og er þá tilvalið fyrir hlaupara að verðlauna sjálfa sig og biðja um „eina með öllu“, nú eða margar með öllu, en að venju býður félagið til rammíslenskrar pylsuveislu.

Stjórnin

Ný lög Íslandsfélagsins

Á aðalfundi Íslandsfélagsins 2. mars sl. voru samþykktar minniháttar breytingar á lögum félagsins. Fækkað var í stjórn og formaður félagsins heitir nú forseti enda er sá titill vinsæll um þessar mundir. Nýju lögin má finna efst á síðunni. Breytingarnar eru gefnar til kynna með skáletri innan hornaklofa svo auðvelt er að koma auga á þær.

Fyrstu fréttir af nýrri stjórn Íslandsfélagsins

Ný stjórn Íslandsfélagsins, sem kosin var á aðalfundinum í marsbyrjun, hefur tekið til starfa. Stjórnin skipti með sér störfum á fyrsta fundi sínum þann 31. mars sl. og var Hrappur kjörinn varaforseti, Karl gjaldkeri, María ritstjóri heimasíðunnar og Rósa fulltrúi í skólanefnd. Forseti, kosinn á aðalfundi, er Jónas.

Helstu viðburðir framundan hjá félaginu eru ferð til Champagne-héraðsins laugardaginn 2. júní, golfmótið „Æsland Ópen“ sunnudaginn 10. júní í Overijse og 17. júní hátíðarhöldin ásamt kvennahlaupi. Skráning í golfmótið er hafin á Facebook (http://www.facebook.com/events/264463580306572/)

Heildardagskrá starfsársins verður kynnt innan skamms.