Úr söguhorninu

Kristjana Guðjónsdóttir sendi Íslandsfélaginu þessa skemmtilegu úrklippu. Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. maí 1994 og þar kemur fram að Íslandsfélagið hafi verið stofnað þann 1. desember 1993. Það er því ekki langt í tuttugu ára afmælið. Gaman væri ef einhver sem er fróður um fyrstu ár Íslandsfélagsins í Brussel gæfi sig fram við stjórn svo hægt væri að halda sögunni til haga.

Kristjana nefnir að nokkur börn á myndinni búi í Brussel í dag. Þekkið þið börnin á myndinni? Smellið á myndina og þá ætti hún að stækka.

Leynist í þér hlaupari?

Meðal Íslendinga í Brussel eru nokkrir hlauparar. Konur virðast vera þar í meirihluta og hafa látið nokkuð til sín taka í hinum ýmsu hlaupum í Brussel undanfarið. Þær hlaupa mishratt, sumar eru mjög sprettharðar en aðrar fara hægar yfir, enda nýbyrjaðar og eldri. Nema hvort tveggja sé! Þær eiga það þó allar sameiginlegt að taka framförum jafnt og þétt og verða sífellt metnaðarfyllri í hlaupaafrekum sínum.

Í Brussel er fjöldinn allur af skipulögðum hlaupum allt árið og frábær aðstaða til að æfa hlaup. Auðvitað er hægt að hlaupa um götur borgarinnar en einnig er mikið af grænum svæðum þar sem yndislegt er að stunda útivist (Cambre skógur, Soignes skógurinn, Parc du Cinquantenaire, Parc de Bruxelles/Parc Royal). Einnig er indælt að hlaupa umhverfis Ixelles vötnin.

Ef þú hefur áhuga á að heyra meira um hlaup í Brussel eða komast í samband við hlaupara er tilvalið að gera það í athugasemd hér fyrir neðan. Einnig má benda á Facebook síðu Íslandsfélagsins.

Mynd: Elín Pálsdóttir

Íslenskukennsla í Brussel.

Íslandsfélagið vill vekja athygli á Skandinavíska tungumálaskólanum á Rue Royale (sjá hér www.scandinavianschool.be) en þar er meðal annars kennd íslenska. Rósa Þórisdóttir annast íslenskukennsluna í Skandinavíska tungumálaskólanum og í vor hafa 17 nemendur sótt íslenskutíma. Flestir, eða 12, eru byrjendur. Á síðasta ári voru um 25 nemendur í íslensku á hverri önn. Það er því ljóst að íslenskan vekur nokkurn áhuga í Brussel. Það er sjálfsagt að benda áhugasömum vinum, kunningjum og mökum á þennan möguleika til læra íslensku.

Mynd: miguelb´s photostream Flickr: Creative Commons

Fræknir fótboltakappar

Undanfarin ár hefur hópur foreldra og barna hist einu sinni í viku og spilað fótbolta undir merkjum Best Ham. Haustið 2011 tók félagið í notkun nýjan heimavöll við Scandinavian School of Brussels (SSB), að Square d´Argenteuil 5, B-1410 Waterloo, en þar er og til húsa Íslenski skólinn. Leiktímabilið er frá september til og með júní ár hvert (hlé í skólaleyfum) og ávallt leikið á sunnudögum, frá kl. 11:00-12:30. Allir sem hafa áhuga á fótbolta og hafa náð 10 ára aldri eru velkomnir að spila með Best Ham, en liðið skipa nú 12-16 einstaklingar (konur, karlar, unglingar og börn) frá fimm þjóðlöndum; Íslandi, Danmörku, Grikklandi, Belgíu og Englandi. Þeir sem hafa áhuga á að bætast í hópinn er bent á að hafa samband við Jónas Jóhannsson (iramod@yahoo.com) en félagsgjöld eru um 10 evrur á mánuði fyrir hverja fjölskyldueiningu (ef tveir eða fleiri spila úr sömu fjölskyldu er aðeins greitt eitt gjald). Þjálfari Best Ham, liðsstjórnandi, og fyrirliði er Jónas Jóhannsson. Félagið er sjálfstæð rekstrareining, en starfar í nánu sambandi við Íslandsfélagið í Belgíu.

Skúmaskot Brussel – pöbbarölt

Stjórn Íslandsfélagsins þakkar þeim sem þátt tóku í ferðinni „skúmaskot Brussel” laugardaginn 5. maí fyrir frábæra skemmtun. Þátttakendur voru 14, bæði konur og karlar, og það er mál manna að afar vel hafi til tekist. Þátttakendur gengu sér til hita í napurlegu veðrinu, drukku hóflega og sýndu prúðmennsku í alla staði.

Þetta var sannkölluð menningarferð; heimsóttir voru sögulegir barir og fræðst um sögu þeirra og drukknir bjórar af ýmsum gerðum. Einnig var skoðuð listsýning (sjá mynd). Jóni Óskari Sólnes eru færðar sérstakar þakkir fyrir frábæra skipulagningu og fararstjórn. Við vonum að framhald verði á ferðum af þessum toga.

Dagskrá Íslandsfélagsins

Félagsmönnum ætti ekki að leiðast því nóg er að gera á næstunni. Skráið strax í dagbækurnar, tölvurnar og símana það sem þið hafið áhuga á að taka þátt í.

  1. Laugardagurinn 2. júní – Vorferð til Champagne í Frakklandi. Skoðunarferð á vínbúgarð(a) / barnapössun/ gisting á staðnum / grill og kvöldvaka (skráning er hafin).
  2. Sunnudagurinn 10. júní – Hið árlega golfmót félagsins „Æsland Ópen” (sjá auglýsingu á fésbók undir viðburðir). Mótsskráning auglýst fljótlega. Hámarksfjöldi: 20 kylfingar
  3. Laugardagurinn 16. júní – Landsleikur Hollands og Íslands í undankeppni HM 2013 í handknattleik (sjá auglýsingu á fésbók).
  4. Sunnudagurinn 17. júní – Hin árlegu 17. júní hátíðahöld á lóð skandinavíska skólans í Waterloo. Kvennahlaup / fjallakonan / íslensk grillveisla / leikir (nánar auglýst síðar). Skráning er hafin í hlaupið (sjá heimasíður og fésbók).

Atburðir hausts og vetrar 2012 sem þegar hafa verið ákveðnir eru þessir:

  1. September eða október: Dagsferð á stríðsminjasvæði í Ypre undir fararstjórn Matthíasar Pálssonar og Jóns Óskars Sólnes.
  2. Október: Hin árlega eplatínslufeð
  3. Sunnudagurinn 9. desember – Hið árlega jólaball í húsnæði EFTA, frá kl. 15-17.
  4. Föstudagurinn 8. febrúar – Hið árlega þorrablót félagsins, haldið á sama stað og undanfarin ár, en nú á mun lægra verði en áður!

Place Lúx samkomur verða svo áfram á sínum stað.

Stjórnin