Hátíðarhöld 17. júní 2012

Sunnudaginn 17. júní sl. stóð Íslandsfélagið fyrir þjóðhátíðarsamkundu við skandinavíska skólann í Waterloo. Dagskráin var með hefðbundnum hætti og hófst með kvennahlaupi (sjá frétt á heimasíðunni).

Síðan tók við grillveisla og auðvitað var boðið upp á SS pylsur og Myllubrauð svo og drykkjarföng af ýmsum toga. 

Formlegri dagskrá lauk með ávarpi fjallkonunnar, sem að þessu sinni var Björk Óskarsdóttir, og fjöldasöng.

Hátíðin var vel sótt og líklega voru um 80 mættir þegar flest var, bæði nýir félagar og eldri svo og gestir í heimsókn frá Íslandi.  

Þótt það megi furðu sæta, miðað við það sem af er sumri í Belgíu, léku veðurguðirnir við okkur og það kom ekki dropi úr lofti!

Golfmót Íslandsfélagsins í Belgíu „Æsland Ópen” 2012

Sunnudaginn 10. júní fór fram hið árlega golfmót Íslandsfélagsins, „Æsland Ópen”, sem nú var haldið þriðja sinni og fór fram á velli Overijse Golf Club, Gemslaan 55 3090 Overijse. Mótið hófst kl. 13, í blíðskaparveðri og voru 16 kylfingar skráðir til leiks, þar af fimm „útlendingar” sem komu ofan af Fróni til þess eins að keppa um gullið. Leiknar voru níu 9 holur samkvæmt „Texas Scramble” fyrirkomulaginu, en þá spila tveir og tveir saman, slá betri bolta síns teymis og halda sameiginlegt skor. Gafst þannig óvönum kylfingum á borð við Einar Símonarson tækifæri til að spila með sér reyndari mönnum og hafa gagn og gaman af.

Veitt voru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin, auk þess sem best klæddi kylfingurinn var leystur út með veglegri gjöf, sem og sá kylfingur sem átti besta nándarhöggið á áttundu holu. Er skemmst frá því að segja, að Jón Óskar Sólnes og Einar Símonarson hrepptu gullið, silfrið rann til Guðlaugs Bergmundssonar og sonar hans Kára, en Gunnar Geirsson og Gestur Ásólfsson urðu að láta sér bronsið nægja. Dalastúlkan Katrín Magnúsdóttir var valin best klæddi kylfingurinn og hafnfirðingurinn Eiríkur Þorvarðarson hreppti nándarverðlaunin með frábæru upphafshöggi á áttundu holu, en samkvæmt mælingu Jónasar Jóhannssonar eftirlitsdómara nam kúludruslan staðar aðeins 15,31 metrum frá holukjafti.

Mótstjóri var Guðlaugur Bergmundsson og veitti hann verðlaun við hátíðlega athöfn að móti loknu. Til stóð að afhenda gullverðlaunahöfunum nýjan og stórglæsilegan farandbikar Íslandsfélagsins, en þegar á reyndi kom í ljós að þeir höfðu ekið á brott í sigurvímu og fengu því dolluna boðsenda daginn eftir. Í refsiskyni ákvað hinn skeleggi mótstjóri, að undirlagi frú Katrínar Magnúsdóttur, að svipta drengina öðrum tveggja gullpeninga og var hann þess í stað afhentur Gabríelu Markúsdóttur, sem þótti standa sig einkar vel á sínu fyrsta golfmóti, en þess má og geta að hún er barnabarn frú Katrínar.

Kvennahlaup 17. júní

Hið árlega Sjóvár kvennahlaup ÍSÍ var haldið í blíðskaparveðri þann 17. júní við skandinavíska skólann í Waterloo. Að lokinni örstuttri upphitun var sprett úr spori og var talsverður keppnisandi í fólki. Þátttakendur voru um 40; konur, karlar og börn á öllum aldri. Flestir þeirra eru Belgíubúar en einnig hlupu gestkomandi með. Sprettharðastur reyndist unglingur í sumarfríi frá Íslandi en við tölum ekki meira um það því í svona hlaupi sigra allir sem taka þátt.

Vorferð 2012: Champagne og kampavín

Vorferð Íslandsfélagsins 2012 var farin fyrstu helgina í júní og var áfangastaðurinn kampavínshéraðið í Frakklandi, eða Champagne. Hátt í 40 manns óku sem leið lá frá Brussel og hittust á búi Nowack hjónanna, í Vandières, laugardaginn 2. júní. Þar var snæddur ljúffengur hádegisverður. Með kampavíni!

Síðan var haldið var til bræðranna David og Hervé Gaudinat í Festigny. Þeir buðu hópnum upp á skoðunarferð um vínkjallarann og skemmtilegan fróðleik um framleiðslu kampavíns. Loks var smakkað á guðaveigunum, sem var auðvitað það sem allir höfðu beðið eftir.

Eftir stutt dagskrárhlé var haldið í kampavínssmökkun hjá Nowack fjölskyldunni, sem hefur framleitt kampavín síðan seint á 18. öld. Að smökkun lokinni var undirbúin sameiginleg grillveisla hópsins. Veðrið lék við ferðafólkið þennan dásamlega dag og það var fallegt að sitja í myrkrinu og raula undir gítarleik Frank Sands seint um kvöldin. Veigarnar voru heldur ekki af verri endanum því vitaskuld var drukkið kampavín með tjaldbúðasöngnum.

Það var almenn ánægja með vorferðina enda umhverfið dásamlegt, drykkurinn góður, og hópurinn samstilltur. Nowack hjónin bjóða upp á frábæra aðstöðu fyrir ferðafólk og fallegt tjaldstæði og er óhætt að mæla með þessum stað sem bækistöð fyrir kampavínssmökkunarfrí. Til að þakka fyrir sig studdu meðlimir Íslandsfélagsins dyggilega við bakið á kampavínsframleiðendum með því að fylla bílana af góðu kampavíni.

Í kampavínshéraðinu er margt að sjá og margir gerðu sér ferð til Reims á leiðinni heim til að berja augunum hina stórbrotnu dómkirkju sem þar er.

Ekki má gleyma að þakka forseta Íslandsfélagsins frábæra skipulagningu ferðarinnar en hann bar hitann og þungann af henni.