Stríð og friður: Haustferð Íslandsfélagsins 15. – 16. september 2012

Að þessu sinni var haustferð Íslandsfélagsins á stríðsslóðir við Ypres. Þátttakendur voru 36, þar af 12 börn á aldrinum 0-12 ára. Ferðin hófst á Hooge Crater safninu, sem er lítið einkasafn. Síðan var ekið til Tyne Cot sem er stærsti herkirkjugarður Breska samveldisins. Hann er afar bjartur og blómum prýddur og lítið skyggir á útsýnið þaðan. Legsteinarnir eru hvítir og öll stemning í nokkru ósamræmi við þær miklu hörmungar sem urðu til þess að allir þessir ungu menn létu lífið.

Eftir hádegisverð á aðaltorginu í Ypres skoðuðum við Yorkshire Trench Dugout svo og Essex Farm kirkjugarðinn þar sem er minnisvarði um John McCrae. Hann var kanadískur læknir og skáld og þekktur fyrir kvæðið In Flanders Field sem hann orti eftir að hafa misst vin sinn Alexis Helmer í orrustu við Ypres.

Sameiginlegur kvöldverður var á veitingastaðnum Pacific Island í Ypres og að honum loknum var haldið til Menin Gate. Þar hefur, síðan árið 1928, verið haldin minningarathöfn á hverju kvöldi um týnda hermenn þar sem blásið er í herlúðra (The Last Post).

Langemark

Sunnudagsmorguninn hófst á heimsókn í Flanders Field safnið sem er einstaklega áhrifamikið safn. Við undirleik þungrar og einhæfrar tónlistar er stríðshryllingnum dembt yfir gestina með myndum, leikþáttum, persónulegum munum hermanna og fleiru. Þetta er safn sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Næsta stopp var Langemark, þar sem hátt í 45000 Þjóðverjar eru grafnir. Þar ríkti önnur stemning en í Tyne Cot. Há eikartré veita skjól og skugga, legsteinarnir eru úr dökkum stein og engin blóm á leiðunum. Það var ekki laust við að manni fyndist þetta passa betur tilefninu en fíneríið í Tyne Cot.

Sprengigígur við Hill 60

Eftir stopp við Hill 60 þar sem hópurinn gekk um gamlan vígvöll og snæddi hádegisverð var farið í síðasta kirkjugarð ferðarinnar, Railway Dugouts Burial Grounds, þar sem nokkrir Vestur-Íslendingar hvíla.

Þar lásu Nick Hannigan og Árni Snævarr ljóðin In Flanders Field eftir John McCrae og Grass eftir Carl Sandburg í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar. Þetta var viðeigandi endir á frábærri ferð.

Það var slegið á ýmsa tilfinningastrengi í haustferðinni að þessu sinni. Heimsóknir í kirkjugarða og vígvelli og á hið stórkostlega safn In Flanders Fields Museum í Ypres, svo og hugleiðingar um brjálsemina sem felst í að senda alla þessa ungu menn á vígvellina vöktu upp trega og depurð. En skemmtilegur félagsskapur og dásamlegt veður voru gott mótvægi og allir fóru glaðir heim. Það er óhætt að mæla með ferð á stríðsslóðir við Ypres. Ekki þó í regni og dumbungi; það yrði ábyggilega of þunglyndislegt.

Matthías G. Pálsson var frábær leiðsögumaður og var klyfjaður lesefni og fróðleik. Enn og aftur sannaði Jónas forseti sig sem ferðafrömuður og skipuleggjandi. Þeim eru færðar bestu þakkir svo og öllum þeim sem tóku þátt í þessari skemmtilegu ferð.

Íslandsfélagið vill að lokum mæla sérstaklega með Main Street Hotel í Ypres. Einungis 3 stjörnur en það er ekki á hverjum degi sem maður fær kampavín og foie gras í morgunverð!

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s