Um lífshlaup Þuríðar Marquise de Grimaldi

Vits er þörf, þeim er víða ratar.

Íslandsfélagið í Belgíu stendur á merkum tímamótum, en félagið var stofnað 1. desember 1993 og heldur því upp á 20 ára afmæli sitt á því Herrans ári 2013. Saga félagsins hefur ekki verið skráð og vita því fáir hverjir stóðu að stofnun þess, og enn færri að meðal hvatamanna var frú Guðrún Högnadóttir Ansiau, sem búsett hefur verið í Brussel í yfir hálfa öld og kölluð hefur verið Guðmóðir félagsins. Guðrún er fyrir margar sakir merk kona; árið 1978 var hún sæmd riddarakrossi lýðveldisins og síðar varð hún fyrsti heiðursfélagi Íslandsfélagsins, en þann hóp skipa fáir og aðeins útvaldir einstaklingar. En Guðrún lætur sér fátt um slíkt finnast, enda með fádæmum hógvær kona, sem undanfarin ár hefur helgað frístundum sínum að grafast fyrir um lífshlaup annarrar og eigi ómerkari konu, sem líkt og Guðrún giftist erlendum manni og flutti ung að árum út í hinn stóra heim á vit ævintýranna. Guðrún hefur víða borið niður í rannsóknum sínum og notið þar aðstoðar eiginmanns síns og lífsförunautar, herra Charles Ansiau. En hver er þessi kona, sem fangað hefur hug og hjarta Guðrúnar og eiginmanns hennar? Hún fæddist á Íslandi 1891 og var skírð Þuríður Dýrfinna Þorbjarnardóttir. Hún lést langt fyrir aldur fram í Belgíu 1925 og var borin til grafar í Brussel. Á legsteini hennar er skjaldarmerki Grimaldi aðalsættarinnar, en undir hvílir greifynjan Þuríður Marquise de Grimaldi d´ Antibes et de Cagne. Þetta er sagan hennar.

Þuríður Þorbjarnardóttir Grimaldi og Henri de Grimaldi, afabróðir Alberts fursta af Mónakó. Myndin er tekin árið 1925
Þuríður Þorbjarnardóttir Grimaldi og Henri de Grimaldi, afabróðir Alberts fursta af Mónakó. Myndin er tekin árið 1925

Þuríður fæddist 30. október 1891 í Garðhúsum við Bakkastíg í Reykjavík; dóttir Guðbjargar Bjarnadóttur og Þorbjarnar Jónassonar. Þuríður þótti snemma efnileg stúlka og hneigð til bókar. Fer þó fáum sögum af uppvexti hennar fram til 1911, en þann vetur tók hún tvo efstu bekki Kvennaskólans og lauk prófi þaðan vorið 1912. Starfaði hún síðan ýmist við verslunarstörf eða kennslu og nýttist þar vel óvenjuleg hæfni hennar til að nema tungumál, einkum dönsku og ensku. Á sumrin dvaldi hún einatt við sveitastörf.

Sumarið 1921, þá er Þuríður stóð á þrítugu, brá hún út af föstum vana um störf í sveit, réði sig á Hótel Skjaldbreið, og varð fljótt altalandi á frönsku. Á hótelinu dvöldu oft útlendingar og kom í hlut Þuríðar að annast samskipti við þá. Meðal hótelgesta þetta sumar var markgreifinn Henri Charles Raoul Marquis de Grimaldi d´Antibes et de Cagne, stóreignamaður í Lissabon, afsprengi elstu konungsættar í Evrópu og náinn ættingi þjóðhöfðingjans í Mónakó. Greifinn, sem þá var liðlega sextugur ekkjumaður, heillaðist mjög af hinni ungu íslensku konu, glæsileik hennar, menntun og háttvísi. Var sú hrifning gagnkvæm, þótt aldursmunur væri vissulega mikill. Fór enda svo að Þuríður hét honum eiginorði, eftir mikil heilabrot, en hjúskapur við greifann boðaði gríðarleg umskipti í lífi hennar. Var hið lúthersk/kaþólska par gefið saman við borgaralega vígslu í Reykjavík 15. október 1921 og viku síðar veitt kirkjuleg vígsla í Landakotskirkju.

Brúðkaupið hlaut mikla umfjöllun reykvískra blaðamanna, enda fátítt að svo tignir menn sem markgreifinn heiðruðu höfuðstað Íslands með nærveru sinni, hvað þá að þeir kvæntust dætrum þjóðarinnar. Var annars lítið vitað um þennan tigna gest og ærið örðugt um heimildaöflun, ólíkt því sem nú er. Samtímaheimildir geta þess þó að hér hafi verið á ferð einstakt prúðmenni, víðförull, afburðagreindur og vel menntaður, sérlega mikill tungumálamaður og mikill áhugamaður um norræn fræði og kveðskap. Er hermt, að greifinn hafi verið talandi á 13 tungumál. Þess er og getið að greifinn hefði kynnst Guðmundi Finnbogasyni, dr. phil síðar landsbókaverði, þegar sá síðarnefndi var við nám í París um 1910 og hann kennt greifanum íslensku, enda hugur greifans staðið til þess að geta lesið hin fornu kvæði á frummálinu. Fór enda svo að greifinn náði góðu valdi á íslensku innan fárra ára og ritaði hana sem íslenskur væri. Liggja eftir greifann allmörg bréf þessu til staðfestu, sem hann sendi vinum og ættingjum Þuríðar greifynju, hið síðasta 11. maí 1940, skömmu fyrir andlát hans 10. desember sama ár.

Sunnudaginn 23. október 1921 lét Gullfoss úr höfn í Reykjavík, og með skipinu hin nýbökuðu hjón. Þuríður kvaddi föðurlandið íklædd dökkblárri dragt og ljósri blússu, með lítinn rósavönd í hendi; grönn og teinrétt, en alvörugefin á svip. Með í för var 19 ára snót, Gunnlaug Briem, sem greifinn hafði boðið henni að taka með sér til samfylgdar og samneytis á nýju heimili í Portúgal. Hefur Þuríði vart grunað, þá er Esjan hvarf henni sjónum, að hún myndi aldrei aftur fjallið líta.

Greifahjónin hófu búskap sinn í Lissabon, en þar hafði Henri greifi mikil umsvif, og undi Þuríður hag sínum vel. Var haft á orði, að einkennilegt þætti að greifynjan kynni bæði að baka smákökur og sauma kjóla, og hún spurð af ráðskonu sinni hvort hún hefði lært til slíkra verka sökum fátæktar á Íslandi. Má ætla, að dugur íslenskra kvenna hafi þá enn ekki borist mikið út fyrir landsteina. Vorið 1922 sneri Gunnlaug heim til Íslands og í hennar stað kom til hjónanna Auður Finnbogadóttir systurdóttir Þuríðar. Hafði þá harðnað mjög á dalnum sökum byltingar og síðar kreppu í Portúgal og greifahjónin misst lungann af eignum sínum. Lýsir Þuríður ástandinu glöggt í bréfum til góðvinar síns, sr. Friðriks Friðrikssonar; hefur helst áhyggjur af lasleika eiginmanns síns, en er æðrulaus um eigin krankleika, svo sem kvenna er gjarnan siður. Haustið 1923 fluttu greifahjónin til Frakklands, síðan til Spa í Belgíu, og þaðan aftur til Lissabon, áður en þau settust að í Brussel vorið 1925, við Avenue Montjoise í Uccle. Sama vor sneri Auður heim til Íslands og stóð til að greifahjónin myndu fylgja á eftir í kynnisför um landið, en þau höfðu yndi af því að ferðast og höfðu víða farið á hjúskaparárunum. En af Íslandsför varð ekki; Þuríður veiktist, líklega af berklum, sem voru tíðir í móðurætt hennar. Dvaldist hún síðan ýmist á heilsuhælum í Spa eða Brussel, uns hún lést 10. október 1925, aðeins 34 ára. Til eru bréf frá margreifanum til Auðar Finnbogadóttur, þar sem hann skýrir frá veikindum og síðar andláti konu sinnar og eru þau öll á vandaðri íslensku. Sá er þetta skrifar hefur lesið umrædd bréf, en af þeim er einsætt að greifinn hafi unnað Þuríði heitt og að sorgin yfir missi hennar hafi fylgt honum til æviloka. Segir þannig í bréfi 23. ágúst 1939 að greifinn sé „kraftlítill, gamall og sorgbitinn“ og skömmu síðar ritar hann að stríð sé að skella á og að nú vildi hann öllu helst vera búsettur á Íslandi, en hafi því miður ekki lengur fjárráð til. Minningu eiginkonu sinnar heiðraði greifinn með því að reisa veglegt minnismerki á gröf hennar og þar hvíla nú hjónin hlið við hlið.

Víkur þá sögunni að Guðrúnu og Charles Ansiau, sem varið hafa ómældum tíma í að grafast fyrir um lífshlaup greifynjunnar og koma í veg fyrir að hjúpur gleymskunnar leggist yfir hið ljúfsára ævintýri hennar á erlendri grund. Er þeim rannsóknum hvergi nærri lokið, en við þær hafa Ansiau hjónin kynnst ættmennum markgreifans í Bretlandi, Frakklandi og Mónakó, sem deilt hafa sama eldmóði við að upplýsa um líf greifahjónanna. Meðal þess sem komið hefur í ljós er að markgreifinn var afabróðir Alberts Grimaldi fursta af Mónakó frá 1889-1922, en sonarsonur furstans var enginn annar en Rainier III, sá hinn sami og kvæntist leikonunni Grace Kelly 1956. Komið hefur og í ljós að markgreifinn hafi átt erfðarétt til furstadæmisins í Mónakó, en afsalað honum til yngri bróður síns, svo hann gæti helgað sig fræðistörfum í stað þess að annast um rekstur hins þjóðrekna spilavítis. Má því segja að brennandi áhugi markgreifans á Íslandi og íslenskri menningu hafi komið í veg fyrir að við eignuðumst okkar eigin furstaynju á borð við Grace Kelly.

Íslandsfélagið í Belgíu hyggst á vormánuðum 2013 heiðra minningu Þuríðar Marquise de Grimaldi d´Antibes et de Cagne, með því að boða til gönguferðar í kirkjugarðinn sem hún hvílir í, og munu félagsmenn njóta þar leiðsagnar hinna ágætu Ansiau hjóna. Er aldrei að vita nema hjónin verði þá búin að komast að því sem enn er sveipað dulúð, nefnilega hver eða hverjir leggi enn fersk blóm á grafreit greifynjunnar íslensku.

Brussel, 9. janúar 2013

Jónas Jóhannsson forseti Íslandsfélagsins í Belgíu

Helstu heimildir:
Björg Einarsdóttir, Úr ævi og starfi íslenskra kvenna II, Rvík 1984.
Björg Einarsdóttir, Grimaldi Greifafrú, Húsfreyjan, Rvík, október-desember 1984, 4. tbl., 35. árg.
Samtöl við Guðrúnu Ansiau og lestur bréfa greifahjónanna

5 thoughts on “Um lífshlaup Þuríðar Marquise de Grimaldi

 1. Gaman að lesa þetta en Auður Finnbogadóttir er langamma mannsins míns. Gaman væri að koma einhvern tímann til Belgíu. Ég mun geyma þessa grein.

  1. Sæl Ásta Soffía, og en gaman að heyra. Íslandsfélagið ætlar að heiðra minningu frú Grimaldi, bæði á thorrablótinu 1. febrúar, og eins með gönguferð í kirkjugarðinn thar sem greifahjónin hvíla. Gaman væri ef thú hefðir tækifæri til að koma í thá göngu, og aldrei að vita nema félagið gæti aðstoðað við farmiðakaup. Ef thú ert ekki “vinur” á Facebook síðu Íslandsfélagsins í Belgíu, væri gaman að fá thig í thann stóra hóp, og thá gætirðu auðveldlega fylgst með dagskránni okkar. Kær kveðja, Jónas Jóhannsson

 2. Sæll Jónas

  Ég ætla að gerast félagi á facebook og bendi manninum mínum og ættingjum á þessa síðu. Því miður hefði ég ekki komist 1. febrúar því lillan mín fæddist 29. janúar. Það væri samt gaman að koma einhvern tíman og fá leiðsögn, gaman að fá að vita aðeins meira um þessa konu, þar sem hún var jú í ættinni og manni finnst maður ekki vita nóg.

  1. Sl aftur sta,

   og mr lst vel thetta. Nkjrin stjrn flagsins formar a blsa til minningargngu kirkjugarinn lok april/byrjun ma, og gera eitthva hatlegt og skemmtilegt af thv tilefni.

   Kv. Jnas Jhannsson forseti … enn eitt ri

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s