Haustgolfmót Íslandsfélagsins 2013

Image

Laugardaginn 21. september var haustgolfmót Íslandsfélagsins haldið á Avernas golfvellinum. Þátttakendur voru 10, átta karlar og tvær konur. Þórir Þórisson kom alla leið frá Frakklandi til þess eins að taka þátt en hann er mjög liðtækur golfari. Sem fyrr var spilað samkvæmt Texas Scramble kerfinu svo ekki var óþægilega mikil pressa á þeim óvanari í hópnum, sem voru þó nokkrir.

Veðrið lék við golfarana og mönnum hljóp kapp í kinn í fallegu umhverfi og góðum félagsskap. Metnaðarfyllstu þátttakendurnir lýstu því yfir að móti loknu að æfingar fyrir næsta mót hæfust strax eftir helgina.

ImageImageSigurvegarar að þessu sinni voru þeir Jón Örn Brynjarsson og Stefan Lechler. Þeir sigruðu þó naumlega því þeir voru einungis 0,1 stigi hærri en félagarnir Einar Símonarson og Robert. Jón Örn Brynjarsson fékk ennfremur verðskulduð verðlaun fyrir framúrskarandi golfklæðnað. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd tónaði allt saman; kylfur, poki, buxur og síðast en ekki síst, takkarnir undir skónum. Aðrir golfarar geta svo sannarlega tekið dirfsku og litagleði Jóns Arnar sér til fyrirmyndar.

Golfmót Íslandsfélagsins í Belgíu “Æsland Ópen” 2013

Image
Keppnisfólkið

Sunnudaginn 9. júní fór fram hið árlega golfmót Íslandsfélagsins, “Æsland Ópen”, sem nú var haldið í fjórða sinn og fór fram á Avernas golfvellinum í Hannut. Mótið hófst kl. 13 og voru átta kylfingar skráðir til leiks. Leiknar voru níu holur samkvæmt “Texas Scramble” fyrirkomulaginu, en þá spila tveir og tveir saman, slá betri bolta síns teymis og halda sameiginlegt skor. Gafst þannig óvönum kylfingum á borð við Stóra Geir tækifæri til að spila með sér reyndari mönnum og hafa gagn og gaman af.

Image
Gulldrengirnir

Veitt voru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin. Er skemmst frá því að segja, að Stóri Geir Þórhallsson og Hafsteinn Hössler Einarsson hrepptu gullið, silfrið rann til Jóns Óskars Sólnes og Einars Símonarsonar, en Guðlaugur Bergmundsson og Kalli litli Einarsson urðu að láta sér bronsið nægja.

Image
Silfurdrengir og sá best klæddi.

Dís Sigurgeirsdóttir og Timme Dossing héldu tómhent heim. Jón Óskar var loks valinn best klæddi kylfingurinn, enda ekki seinna að vænna, maðurinn að flytja til Íslands og búinn að verja þúsundum evra í golffatnað undanfarin ár. Stóri Geir hreppti nándarverðlaunin með þokkalegu upphafshöggi á fimmtu holu, en samkvæmt mælingu eftirlitsdómara nam kúludruslan staðar 10 metrum frá holukjafti. Kalli litli var valinn efnilegasti kylfingurinn, og hafði þar betur í baráttunni við Timme danska, sem skildi ekki hinar flóknu íslensku kosningareglur og kaus óvart Kalla með háværu “ja tak skal du ha” þegar hann hélt að hann væri að þiggja bjór frá Kalla.

Bronsverðlaunahafar og "litli" mótstjórinn
Bronsverðlaunahafar og “litli” mótstjórinn

Mótstjóri var Guðlaugur Bergmundsson og veitti hann verðlaun við hátíðlega athöfn að móti loknu, en forseti afhenti nýkrýndum gullverðlaunahöfum farandbikar félagsins, til varðveislu í eitt ár. Áður en yfir lauk var drukkið minni Dalastúlkna, haft á orði að mikill missir væri að því að frú Katrín Magnúsdóttir væri ekki meðal þátttakenda, og ákveðið að blása til haustmóts í lok september eða byrjun október.

Vor- og sumardagskrá Íslandsfélagsins

Clervaux kastali
Clervaux kastali

Stjórn Íslandsfélagsins hefur nú ráðið ráðum sínum og framundan eru fjórir spennandi atburðir á vegum félagsins. Skráið hjá ykkur eftirfarandi atburði og dagsetningar. Allar nánari upplýsingar koma þegar nær dregur.

 

 
Sunnudagur 12. maí – minningarganga Þuríðar greifaynju Grimaldi (Uccle)

Laugardagur 1.(-2.) júní – vorferð á slóðir nóbelssskáldsins í Clervaux (Lúx)

Sunnudagur 9. júní – golfmót félagsins “Æsland Ópen” (áður auglýst)

Sunnudagur 16. júní – kvennahlaup og 17. júní hátíðahöld (Waterloo)

Með von um góðar undirtektir

Stjórnin

 

Mynd: http://commons.wikimedia.org/wiki/File:0_Clervaux_101021_CH2.JPG

Aðalfundur Íslandsfélagsins 8. mars 2013

Edward VII Emperor of India
Játvarður 7., keisari Indlands

Aðalfundur Íslandsfélagsins í Belgíu var haldinn í gær, föstudaginn 8. mars. Ellefu mættu á fundinn, sem er 10% aukning frá síðasta aðalfundi, og munar þar af til vill mestu að Þórir Ibsen sendiherra mætti með bænaskjal undiritað af 82 nýlendubúum, með áskorun til forseta að sitja áfram í að minnsta kosti eitt kjörtímabil.

Skýrslur félagsins og Íslenska skólans voru kynntar, farið yfir ársreikninga og þeir samþykktir einróma. Því næst var tekin fyrir lagabreytingartillaga frá forseta, þess efnis að fjölgað yrði í stjórn félagsins úr fimm í sex fulltrúa, og var sú tillaga einnig samþykkt.

Þessu næst var gengið til forsetakjörs, og þar sem enginn bauð sig fram var Jónas Jóhannsson endurkjörinn við dynjandi lófatak. Hrappur Magnússon og Karl Trausti Einarsson gáfu ekki kost á sér til endurkjörs í stjórn, en aðalfundur kaus eftirtalda til stjórnarsetu starfsárið 2013-2014: Rósu Rut Þórisdóttur, Maríu Kristínu Jónsdóttur, Geir Þórhallsson, Elínu Pálsdóttur og Elínu Önnu Jónasdóttur. Þannig sitja nú fjórar valkyrjur í stjórn, á móti tveimur körlum. Hrappi og Karli eru þökkuð fórnfús störf í þágu félagsins, en Karl mun þó koma áfram að félagsstarfinu, enda hann og Einar Símonarson einróma kjörnir endurskoðunarmenn félags og skóla árið 2013-2014.

Aðalfundur ákvað að félagsgjöld skyldu óbreytt, og eru þau því aðeins 50 evrur fyrir hvern félagsmann 18 ára og eldri, þó þannig að námsmenn og starfsnemar yngri en 30 ára greiða aðeins hálft gjald, eða 25 evrur.

Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum voru tekin fyrir ,,önnur mál”og meðal annars rætt um að ný stjórn myndi ekki hefja formlega innheimtu árgjalds fyrr en í september, samhliða því að starfsemi íslenska skólans færi af stað. Þá var gerður góður rómur að því að félag og skóli myndu blása til sameiginlegrar grillveislu fyrir alla nýlendubúa nú á vormánuðum, kynna starfsemi sína, og bjóða nýbúa formlega velkomna í nýlenduna okkar.

Undir lok fundar, þegar þreyta hafði sest í fundarmenn, stakk forseti upp á því að lögum félagsins yrði breytt á þann veg að í stað ,,forseta” kæmi ,,keisari”, sem sæti þá ævilangt við völd, en sú tillaga var felld með tíu atkvæðum á móti einu.

Þótti nú sýnt að fleira yrði ekki gert vitlegt á aðalfundi og var honum slitið við svo búið. Skýrsla stjórnar fylgir með hér í viðhengi svo og ítarlegri fundargerð forseta.

Ársskýrsla-2013  Aðalfundur2013 fundargerð

Um lífshlaup Þuríðar Marquise de Grimaldi

Vits er þörf, þeim er víða ratar.

Íslandsfélagið í Belgíu stendur á merkum tímamótum, en félagið var stofnað 1. desember 1993 og heldur því upp á 20 ára afmæli sitt á því Herrans ári 2013. Saga félagsins hefur ekki verið skráð og vita því fáir hverjir stóðu að stofnun þess, og enn færri að meðal hvatamanna var frú Guðrún Högnadóttir Ansiau, sem búsett hefur verið í Brussel í yfir hálfa öld og kölluð hefur verið Guðmóðir félagsins. Guðrún er fyrir margar sakir merk kona; árið 1978 var hún sæmd riddarakrossi lýðveldisins og síðar varð hún fyrsti heiðursfélagi Íslandsfélagsins, en þann hóp skipa fáir og aðeins útvaldir einstaklingar. En Guðrún lætur sér fátt um slíkt finnast, enda með fádæmum hógvær kona, sem undanfarin ár hefur helgað frístundum sínum að grafast fyrir um lífshlaup annarrar og eigi ómerkari konu, sem líkt og Guðrún giftist erlendum manni og flutti ung að árum út í hinn stóra heim á vit ævintýranna. Guðrún hefur víða borið niður í rannsóknum sínum og notið þar aðstoðar eiginmanns síns og lífsförunautar, herra Charles Ansiau. En hver er þessi kona, sem fangað hefur hug og hjarta Guðrúnar og eiginmanns hennar? Hún fæddist á Íslandi 1891 og var skírð Þuríður Dýrfinna Þorbjarnardóttir. Hún lést langt fyrir aldur fram í Belgíu 1925 og var borin til grafar í Brussel. Á legsteini hennar er skjaldarmerki Grimaldi aðalsættarinnar, en undir hvílir greifynjan Þuríður Marquise de Grimaldi d´ Antibes et de Cagne. Þetta er sagan hennar.

Þuríður Þorbjarnardóttir Grimaldi og Henri de Grimaldi, afabróðir Alberts fursta af Mónakó. Myndin er tekin árið 1925
Þuríður Þorbjarnardóttir Grimaldi og Henri de Grimaldi, afabróðir Alberts fursta af Mónakó. Myndin er tekin árið 1925

Þuríður fæddist 30. október 1891 í Garðhúsum við Bakkastíg í Reykjavík; dóttir Guðbjargar Bjarnadóttur og Þorbjarnar Jónassonar. Þuríður þótti snemma efnileg stúlka og hneigð til bókar. Fer þó fáum sögum af uppvexti hennar fram til 1911, en þann vetur tók hún tvo efstu bekki Kvennaskólans og lauk prófi þaðan vorið 1912. Starfaði hún síðan ýmist við verslunarstörf eða kennslu og nýttist þar vel óvenjuleg hæfni hennar til að nema tungumál, einkum dönsku og ensku. Á sumrin dvaldi hún einatt við sveitastörf.

Sumarið 1921, þá er Þuríður stóð á þrítugu, brá hún út af föstum vana um störf í sveit, réði sig á Hótel Skjaldbreið, og varð fljótt altalandi á frönsku. Á hótelinu dvöldu oft útlendingar og kom í hlut Þuríðar að annast samskipti við þá. Meðal hótelgesta þetta sumar var markgreifinn Henri Charles Raoul Marquis de Grimaldi d´Antibes et de Cagne, stóreignamaður í Lissabon, afsprengi elstu konungsættar í Evrópu og náinn ættingi þjóðhöfðingjans í Mónakó. Greifinn, sem þá var liðlega sextugur ekkjumaður, heillaðist mjög af hinni ungu íslensku konu, glæsileik hennar, menntun og háttvísi. Var sú hrifning gagnkvæm, þótt aldursmunur væri vissulega mikill. Fór enda svo að Þuríður hét honum eiginorði, eftir mikil heilabrot, en hjúskapur við greifann boðaði gríðarleg umskipti í lífi hennar. Var hið lúthersk/kaþólska par gefið saman við borgaralega vígslu í Reykjavík 15. október 1921 og viku síðar veitt kirkjuleg vígsla í Landakotskirkju.

Brúðkaupið hlaut mikla umfjöllun reykvískra blaðamanna, enda fátítt að svo tignir menn sem markgreifinn heiðruðu höfuðstað Íslands með nærveru sinni, hvað þá að þeir kvæntust dætrum þjóðarinnar. Var annars lítið vitað um þennan tigna gest og ærið örðugt um heimildaöflun, ólíkt því sem nú er. Samtímaheimildir geta þess þó að hér hafi verið á ferð einstakt prúðmenni, víðförull, afburðagreindur og vel menntaður, sérlega mikill tungumálamaður og mikill áhugamaður um norræn fræði og kveðskap. Er hermt, að greifinn hafi verið talandi á 13 tungumál. Þess er og getið að greifinn hefði kynnst Guðmundi Finnbogasyni, dr. phil síðar landsbókaverði, þegar sá síðarnefndi var við nám í París um 1910 og hann kennt greifanum íslensku, enda hugur greifans staðið til þess að geta lesið hin fornu kvæði á frummálinu. Fór enda svo að greifinn náði góðu valdi á íslensku innan fárra ára og ritaði hana sem íslenskur væri. Liggja eftir greifann allmörg bréf þessu til staðfestu, sem hann sendi vinum og ættingjum Þuríðar greifynju, hið síðasta 11. maí 1940, skömmu fyrir andlát hans 10. desember sama ár.

Sunnudaginn 23. október 1921 lét Gullfoss úr höfn í Reykjavík, og með skipinu hin nýbökuðu hjón. Þuríður kvaddi föðurlandið íklædd dökkblárri dragt og ljósri blússu, með lítinn rósavönd í hendi; grönn og teinrétt, en alvörugefin á svip. Með í för var 19 ára snót, Gunnlaug Briem, sem greifinn hafði boðið henni að taka með sér til samfylgdar og samneytis á nýju heimili í Portúgal. Hefur Þuríði vart grunað, þá er Esjan hvarf henni sjónum, að hún myndi aldrei aftur fjallið líta.

Greifahjónin hófu búskap sinn í Lissabon, en þar hafði Henri greifi mikil umsvif, og undi Þuríður hag sínum vel. Var haft á orði, að einkennilegt þætti að greifynjan kynni bæði að baka smákökur og sauma kjóla, og hún spurð af ráðskonu sinni hvort hún hefði lært til slíkra verka sökum fátæktar á Íslandi. Má ætla, að dugur íslenskra kvenna hafi þá enn ekki borist mikið út fyrir landsteina. Vorið 1922 sneri Gunnlaug heim til Íslands og í hennar stað kom til hjónanna Auður Finnbogadóttir systurdóttir Þuríðar. Hafði þá harðnað mjög á dalnum sökum byltingar og síðar kreppu í Portúgal og greifahjónin misst lungann af eignum sínum. Lýsir Þuríður ástandinu glöggt í bréfum til góðvinar síns, sr. Friðriks Friðrikssonar; hefur helst áhyggjur af lasleika eiginmanns síns, en er æðrulaus um eigin krankleika, svo sem kvenna er gjarnan siður. Haustið 1923 fluttu greifahjónin til Frakklands, síðan til Spa í Belgíu, og þaðan aftur til Lissabon, áður en þau settust að í Brussel vorið 1925, við Avenue Montjoise í Uccle. Sama vor sneri Auður heim til Íslands og stóð til að greifahjónin myndu fylgja á eftir í kynnisför um landið, en þau höfðu yndi af því að ferðast og höfðu víða farið á hjúskaparárunum. En af Íslandsför varð ekki; Þuríður veiktist, líklega af berklum, sem voru tíðir í móðurætt hennar. Dvaldist hún síðan ýmist á heilsuhælum í Spa eða Brussel, uns hún lést 10. október 1925, aðeins 34 ára. Til eru bréf frá margreifanum til Auðar Finnbogadóttur, þar sem hann skýrir frá veikindum og síðar andláti konu sinnar og eru þau öll á vandaðri íslensku. Sá er þetta skrifar hefur lesið umrædd bréf, en af þeim er einsætt að greifinn hafi unnað Þuríði heitt og að sorgin yfir missi hennar hafi fylgt honum til æviloka. Segir þannig í bréfi 23. ágúst 1939 að greifinn sé „kraftlítill, gamall og sorgbitinn“ og skömmu síðar ritar hann að stríð sé að skella á og að nú vildi hann öllu helst vera búsettur á Íslandi, en hafi því miður ekki lengur fjárráð til. Minningu eiginkonu sinnar heiðraði greifinn með því að reisa veglegt minnismerki á gröf hennar og þar hvíla nú hjónin hlið við hlið.

Víkur þá sögunni að Guðrúnu og Charles Ansiau, sem varið hafa ómældum tíma í að grafast fyrir um lífshlaup greifynjunnar og koma í veg fyrir að hjúpur gleymskunnar leggist yfir hið ljúfsára ævintýri hennar á erlendri grund. Er þeim rannsóknum hvergi nærri lokið, en við þær hafa Ansiau hjónin kynnst ættmennum markgreifans í Bretlandi, Frakklandi og Mónakó, sem deilt hafa sama eldmóði við að upplýsa um líf greifahjónanna. Meðal þess sem komið hefur í ljós er að markgreifinn var afabróðir Alberts Grimaldi fursta af Mónakó frá 1889-1922, en sonarsonur furstans var enginn annar en Rainier III, sá hinn sami og kvæntist leikonunni Grace Kelly 1956. Komið hefur og í ljós að markgreifinn hafi átt erfðarétt til furstadæmisins í Mónakó, en afsalað honum til yngri bróður síns, svo hann gæti helgað sig fræðistörfum í stað þess að annast um rekstur hins þjóðrekna spilavítis. Má því segja að brennandi áhugi markgreifans á Íslandi og íslenskri menningu hafi komið í veg fyrir að við eignuðumst okkar eigin furstaynju á borð við Grace Kelly.

Íslandsfélagið í Belgíu hyggst á vormánuðum 2013 heiðra minningu Þuríðar Marquise de Grimaldi d´Antibes et de Cagne, með því að boða til gönguferðar í kirkjugarðinn sem hún hvílir í, og munu félagsmenn njóta þar leiðsagnar hinna ágætu Ansiau hjóna. Er aldrei að vita nema hjónin verði þá búin að komast að því sem enn er sveipað dulúð, nefnilega hver eða hverjir leggi enn fersk blóm á grafreit greifynjunnar íslensku.

Brussel, 9. janúar 2013

Jónas Jóhannsson forseti Íslandsfélagsins í Belgíu

Helstu heimildir:
Björg Einarsdóttir, Úr ævi og starfi íslenskra kvenna II, Rvík 1984.
Björg Einarsdóttir, Grimaldi Greifafrú, Húsfreyjan, Rvík, október-desember 1984, 4. tbl., 35. árg.
Samtöl við Guðrúnu Ansiau og lestur bréfa greifahjónanna

Skyrgámur og Stúfur í höfuðborg Evrópu

Ómar Ali er ekkert hræddur!
Ómar Ali er hvergi smeykur!

Árlegt jólaball Íslandsfélagsins var haldið í húsakynnum EFTA sunnudaginn 9. desember. Skyrgámur og Stúfur mættu með gjafir, söng og gleði. Veitingar á hlaðborðinu voru veglegar eins og við var að búast og ungir sem aldnir fóru heim með jól í hjarta.

Við óskum öllum félagsmönnum nær og fjær gleðilegra jóla og hlökkum til samvista á nýju ári.

Ótrúlegt en satt! Forsetinn fimmtugur

með pakkannÞann 7. nóvember síðastliðinn varð forseti Íslandsfélagsins í Belgíu, Jónas Jóhannsson, fimmtugur og þótti félagsmönnum ástæða til að heiðra hann af því tilefni. Ákveðið var að slá tvær flugur í einu höggi og kenna honum að drekka gott kaffi enda Carrefour hryllingurinn honum ekki samboðinn. Keypt var eðalkaffivél og hún afhent við hátíðlega athöfn að lokinni fótboltaæfingu Bestham í Waterloo sunnudaginn 11. nóvember.

Það er auðvitað ótrúlegt að forsetinn skuli vera orðinn fimmtugur. Maðurinn hefur starfsþrek og útlit á við sér mun yngri mann. Sú er þetta skrifar telur að félagsstörfin haldi forsetanum ungum og hefur þá trú að það sé því ekki óhætt fyrir hann að hætta afskiptum af þeim. Áfram Jónas!

Stríð og friður: Haustferð Íslandsfélagsins 15. – 16. september 2012

Að þessu sinni var haustferð Íslandsfélagsins á stríðsslóðir við Ypres. Þátttakendur voru 36, þar af 12 börn á aldrinum 0-12 ára. Ferðin hófst á Hooge Crater safninu, sem er lítið einkasafn. Síðan var ekið til Tyne Cot sem er stærsti herkirkjugarður Breska samveldisins. Hann er afar bjartur og blómum prýddur og lítið skyggir á útsýnið þaðan. Legsteinarnir eru hvítir og öll stemning í nokkru ósamræmi við þær miklu hörmungar sem urðu til þess að allir þessir ungu menn létu lífið.

Eftir hádegisverð á aðaltorginu í Ypres skoðuðum við Yorkshire Trench Dugout svo og Essex Farm kirkjugarðinn þar sem er minnisvarði um John McCrae. Hann var kanadískur læknir og skáld og þekktur fyrir kvæðið In Flanders Field sem hann orti eftir að hafa misst vin sinn Alexis Helmer í orrustu við Ypres.

Sameiginlegur kvöldverður var á veitingastaðnum Pacific Island í Ypres og að honum loknum var haldið til Menin Gate. Þar hefur, síðan árið 1928, verið haldin minningarathöfn á hverju kvöldi um týnda hermenn þar sem blásið er í herlúðra (The Last Post).

Langemark

Sunnudagsmorguninn hófst á heimsókn í Flanders Field safnið sem er einstaklega áhrifamikið safn. Við undirleik þungrar og einhæfrar tónlistar er stríðshryllingnum dembt yfir gestina með myndum, leikþáttum, persónulegum munum hermanna og fleiru. Þetta er safn sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Næsta stopp var Langemark, þar sem hátt í 45000 Þjóðverjar eru grafnir. Þar ríkti önnur stemning en í Tyne Cot. Há eikartré veita skjól og skugga, legsteinarnir eru úr dökkum stein og engin blóm á leiðunum. Það var ekki laust við að manni fyndist þetta passa betur tilefninu en fíneríið í Tyne Cot.

Sprengigígur við Hill 60

Eftir stopp við Hill 60 þar sem hópurinn gekk um gamlan vígvöll og snæddi hádegisverð var farið í síðasta kirkjugarð ferðarinnar, Railway Dugouts Burial Grounds, þar sem nokkrir Vestur-Íslendingar hvíla.

Þar lásu Nick Hannigan og Árni Snævarr ljóðin In Flanders Field eftir John McCrae og Grass eftir Carl Sandburg í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar. Þetta var viðeigandi endir á frábærri ferð.

Það var slegið á ýmsa tilfinningastrengi í haustferðinni að þessu sinni. Heimsóknir í kirkjugarða og vígvelli og á hið stórkostlega safn In Flanders Fields Museum í Ypres, svo og hugleiðingar um brjálsemina sem felst í að senda alla þessa ungu menn á vígvellina vöktu upp trega og depurð. En skemmtilegur félagsskapur og dásamlegt veður voru gott mótvægi og allir fóru glaðir heim. Það er óhætt að mæla með ferð á stríðsslóðir við Ypres. Ekki þó í regni og dumbungi; það yrði ábyggilega of þunglyndislegt.

Matthías G. Pálsson var frábær leiðsögumaður og var klyfjaður lesefni og fróðleik. Enn og aftur sannaði Jónas forseti sig sem ferðafrömuður og skipuleggjandi. Þeim eru færðar bestu þakkir svo og öllum þeim sem tóku þátt í þessari skemmtilegu ferð.

Íslandsfélagið vill að lokum mæla sérstaklega með Main Street Hotel í Ypres. Einungis 3 stjörnur en það er ekki á hverjum degi sem maður fær kampavín og foie gras í morgunverð!

Hátíðarhöld 17. júní 2012

Sunnudaginn 17. júní sl. stóð Íslandsfélagið fyrir þjóðhátíðarsamkundu við skandinavíska skólann í Waterloo. Dagskráin var með hefðbundnum hætti og hófst með kvennahlaupi (sjá frétt á heimasíðunni).

Síðan tók við grillveisla og auðvitað var boðið upp á SS pylsur og Myllubrauð svo og drykkjarföng af ýmsum toga. 

Formlegri dagskrá lauk með ávarpi fjallkonunnar, sem að þessu sinni var Björk Óskarsdóttir, og fjöldasöng.

Hátíðin var vel sótt og líklega voru um 80 mættir þegar flest var, bæði nýir félagar og eldri svo og gestir í heimsókn frá Íslandi.  

Þótt það megi furðu sæta, miðað við það sem af er sumri í Belgíu, léku veðurguðirnir við okkur og það kom ekki dropi úr lofti!

Golfmót Íslandsfélagsins í Belgíu „Æsland Ópen” 2012

Sunnudaginn 10. júní fór fram hið árlega golfmót Íslandsfélagsins, „Æsland Ópen”, sem nú var haldið þriðja sinni og fór fram á velli Overijse Golf Club, Gemslaan 55 3090 Overijse. Mótið hófst kl. 13, í blíðskaparveðri og voru 16 kylfingar skráðir til leiks, þar af fimm „útlendingar” sem komu ofan af Fróni til þess eins að keppa um gullið. Leiknar voru níu 9 holur samkvæmt „Texas Scramble” fyrirkomulaginu, en þá spila tveir og tveir saman, slá betri bolta síns teymis og halda sameiginlegt skor. Gafst þannig óvönum kylfingum á borð við Einar Símonarson tækifæri til að spila með sér reyndari mönnum og hafa gagn og gaman af.

Veitt voru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin, auk þess sem best klæddi kylfingurinn var leystur út með veglegri gjöf, sem og sá kylfingur sem átti besta nándarhöggið á áttundu holu. Er skemmst frá því að segja, að Jón Óskar Sólnes og Einar Símonarson hrepptu gullið, silfrið rann til Guðlaugs Bergmundssonar og sonar hans Kára, en Gunnar Geirsson og Gestur Ásólfsson urðu að láta sér bronsið nægja. Dalastúlkan Katrín Magnúsdóttir var valin best klæddi kylfingurinn og hafnfirðingurinn Eiríkur Þorvarðarson hreppti nándarverðlaunin með frábæru upphafshöggi á áttundu holu, en samkvæmt mælingu Jónasar Jóhannssonar eftirlitsdómara nam kúludruslan staðar aðeins 15,31 metrum frá holukjafti.

Mótstjóri var Guðlaugur Bergmundsson og veitti hann verðlaun við hátíðlega athöfn að móti loknu. Til stóð að afhenda gullverðlaunahöfunum nýjan og stórglæsilegan farandbikar Íslandsfélagsins, en þegar á reyndi kom í ljós að þeir höfðu ekið á brott í sigurvímu og fengu því dolluna boðsenda daginn eftir. Í refsiskyni ákvað hinn skeleggi mótstjóri, að undirlagi frú Katrínar Magnúsdóttur, að svipta drengina öðrum tveggja gullpeninga og var hann þess í stað afhentur Gabríelu Markúsdóttur, sem þótti standa sig einkar vel á sínu fyrsta golfmóti, en þess má og geta að hún er barnabarn frú Katrínar.