Aðalfundur 2014

Föstudaginn 14. mars 2014 var aðalfundur Íslandsfélagsins haldinn í íslenska sendiráðinu. Allir stjórnarmenn nema María K. Jónsdóttir gáfu kost á sér áfram og ný í stjórn í stað Maríu er Þórunn Ragnarsdóttir. Við bjóðum hana innilega velkomna til starfa. Stjórn Íslandsfélagsins fyrir starfsárið 2014-2015 skipa:

Jónas Jóhannsson, Geir Þórhallsson, Rósa Rut Þórisdóttir, Elín Pálsdóttir, Elín Anna Jónasdóttir og Þórunn Ragnarsdóttir. stjorn 2014 2015

Einar Símonarson gaf ekki kost á sér til endurkjörs sem skoðunarmaður reikninga. Karl Trausti Einarsson var kjörinn í hans stað.

Skýrsla stjórnar er hér. Að venju er hún efnismikil og ítarleg enda heilmikið starf unnið í félaginu. Hér er svo skýrsla Íslenska skólans sem Friðsemd Dröfn Guðjónsdóttir stýrir styrkri hendi.

Þetta var sólríkur og fallegur dagur og eftir fundinn þótti við hæfi að fagna nýrri stjórn og hækkandi sól á Place Lúx. Megi ný stjórn Íslandsfélagsins áfram verða sólarmeginn í tilverunni!

Image

Aðalfundur Íslandsfélagsins 8. mars 2013

Edward VII Emperor of India
Játvarður 7., keisari Indlands

Aðalfundur Íslandsfélagsins í Belgíu var haldinn í gær, föstudaginn 8. mars. Ellefu mættu á fundinn, sem er 10% aukning frá síðasta aðalfundi, og munar þar af til vill mestu að Þórir Ibsen sendiherra mætti með bænaskjal undiritað af 82 nýlendubúum, með áskorun til forseta að sitja áfram í að minnsta kosti eitt kjörtímabil.

Skýrslur félagsins og Íslenska skólans voru kynntar, farið yfir ársreikninga og þeir samþykktir einróma. Því næst var tekin fyrir lagabreytingartillaga frá forseta, þess efnis að fjölgað yrði í stjórn félagsins úr fimm í sex fulltrúa, og var sú tillaga einnig samþykkt.

Þessu næst var gengið til forsetakjörs, og þar sem enginn bauð sig fram var Jónas Jóhannsson endurkjörinn við dynjandi lófatak. Hrappur Magnússon og Karl Trausti Einarsson gáfu ekki kost á sér til endurkjörs í stjórn, en aðalfundur kaus eftirtalda til stjórnarsetu starfsárið 2013-2014: Rósu Rut Þórisdóttur, Maríu Kristínu Jónsdóttur, Geir Þórhallsson, Elínu Pálsdóttur og Elínu Önnu Jónasdóttur. Þannig sitja nú fjórar valkyrjur í stjórn, á móti tveimur körlum. Hrappi og Karli eru þökkuð fórnfús störf í þágu félagsins, en Karl mun þó koma áfram að félagsstarfinu, enda hann og Einar Símonarson einróma kjörnir endurskoðunarmenn félags og skóla árið 2013-2014.

Aðalfundur ákvað að félagsgjöld skyldu óbreytt, og eru þau því aðeins 50 evrur fyrir hvern félagsmann 18 ára og eldri, þó þannig að námsmenn og starfsnemar yngri en 30 ára greiða aðeins hálft gjald, eða 25 evrur.

Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum voru tekin fyrir ,,önnur mál”og meðal annars rætt um að ný stjórn myndi ekki hefja formlega innheimtu árgjalds fyrr en í september, samhliða því að starfsemi íslenska skólans færi af stað. Þá var gerður góður rómur að því að félag og skóli myndu blása til sameiginlegrar grillveislu fyrir alla nýlendubúa nú á vormánuðum, kynna starfsemi sína, og bjóða nýbúa formlega velkomna í nýlenduna okkar.

Undir lok fundar, þegar þreyta hafði sest í fundarmenn, stakk forseti upp á því að lögum félagsins yrði breytt á þann veg að í stað ,,forseta” kæmi ,,keisari”, sem sæti þá ævilangt við völd, en sú tillaga var felld með tíu atkvæðum á móti einu.

Þótti nú sýnt að fleira yrði ekki gert vitlegt á aðalfundi og var honum slitið við svo búið. Skýrsla stjórnar fylgir með hér í viðhengi svo og ítarlegri fundargerð forseta.

Ársskýrsla-2013  Aðalfundur2013 fundargerð

Ný lög Íslandsfélagsins

Á aðalfundi Íslandsfélagsins 2. mars sl. voru samþykktar minniháttar breytingar á lögum félagsins. Fækkað var í stjórn og formaður félagsins heitir nú forseti enda er sá titill vinsæll um þessar mundir. Nýju lögin má finna efst á síðunni. Breytingarnar eru gefnar til kynna með skáletri innan hornaklofa svo auðvelt er að koma auga á þær.

Fyrstu fréttir af nýrri stjórn Íslandsfélagsins

Ný stjórn Íslandsfélagsins, sem kosin var á aðalfundinum í marsbyrjun, hefur tekið til starfa. Stjórnin skipti með sér störfum á fyrsta fundi sínum þann 31. mars sl. og var Hrappur kjörinn varaforseti, Karl gjaldkeri, María ritstjóri heimasíðunnar og Rósa fulltrúi í skólanefnd. Forseti, kosinn á aðalfundi, er Jónas.

Helstu viðburðir framundan hjá félaginu eru ferð til Champagne-héraðsins laugardaginn 2. júní, golfmótið „Æsland Ópen“ sunnudaginn 10. júní í Overijse og 17. júní hátíðarhöldin ásamt kvennahlaupi. Skráning í golfmótið er hafin á Facebook (http://www.facebook.com/events/264463580306572/)

Heildardagskrá starfsársins verður kynnt innan skamms.

Aðalfundur Íslandsfélagsins 2012

Aðalfundur Íslandsfélagsins í Belgíu var haldinn í gær, föstudaginn 2. mars 2012. Á fundinum var ný stjórn félagsins kosin auk þess sem hefðbundin aðalfundarstörf fóru fram. Ný stjórn Íslandsfélagsins er skipuð svo:

Jónas Jóhannsson forseti

Aðrir í stjórn:
Karl Trausti Einarsson
Hrappur Magnússon
María Kristín Jónsdóttir
Rósa Rut Þórisdóttir

Dís Sigurgeirsdóttir, Eiríkur Þorvarðarson, Ragnhildur Inga Guðbjartsdóttir og Steinunn Pálsdóttir báðust undan endurkjöri og þökkum við þeim fyrir fórnfús störf á síðasta starfsári (árum í tilfelli Dísar og Steinunnar).

Fundargerð aðalfundar, sem og ársskýrslur félagsins og Íslenska skólans, er nú hægt að nálgast hér með því að smella á eftirfarandi tengla:

Ársskýrsla Íslandsfélagsins 2012
Lög Íslandsfélagins í Belgíu
Skýrsla Íslenskuskólans 2012

Stjórnin.