Haustgolfmót Íslandsfélagsins 2013

Image

Laugardaginn 21. september var haustgolfmót Íslandsfélagsins haldið á Avernas golfvellinum. Þátttakendur voru 10, átta karlar og tvær konur. Þórir Þórisson kom alla leið frá Frakklandi til þess eins að taka þátt en hann er mjög liðtækur golfari. Sem fyrr var spilað samkvæmt Texas Scramble kerfinu svo ekki var óþægilega mikil pressa á þeim óvanari í hópnum, sem voru þó nokkrir.

Veðrið lék við golfarana og mönnum hljóp kapp í kinn í fallegu umhverfi og góðum félagsskap. Metnaðarfyllstu þátttakendurnir lýstu því yfir að móti loknu að æfingar fyrir næsta mót hæfust strax eftir helgina.

ImageImageSigurvegarar að þessu sinni voru þeir Jón Örn Brynjarsson og Stefan Lechler. Þeir sigruðu þó naumlega því þeir voru einungis 0,1 stigi hærri en félagarnir Einar Símonarson og Robert. Jón Örn Brynjarsson fékk ennfremur verðskulduð verðlaun fyrir framúrskarandi golfklæðnað. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd tónaði allt saman; kylfur, poki, buxur og síðast en ekki síst, takkarnir undir skónum. Aðrir golfarar geta svo sannarlega tekið dirfsku og litagleði Jóns Arnar sér til fyrirmyndar.

Golfmót Íslandsfélagsins í Belgíu “Æsland Ópen” 2013

Image
Keppnisfólkið

Sunnudaginn 9. júní fór fram hið árlega golfmót Íslandsfélagsins, “Æsland Ópen”, sem nú var haldið í fjórða sinn og fór fram á Avernas golfvellinum í Hannut. Mótið hófst kl. 13 og voru átta kylfingar skráðir til leiks. Leiknar voru níu holur samkvæmt “Texas Scramble” fyrirkomulaginu, en þá spila tveir og tveir saman, slá betri bolta síns teymis og halda sameiginlegt skor. Gafst þannig óvönum kylfingum á borð við Stóra Geir tækifæri til að spila með sér reyndari mönnum og hafa gagn og gaman af.

Image
Gulldrengirnir

Veitt voru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin. Er skemmst frá því að segja, að Stóri Geir Þórhallsson og Hafsteinn Hössler Einarsson hrepptu gullið, silfrið rann til Jóns Óskars Sólnes og Einars Símonarsonar, en Guðlaugur Bergmundsson og Kalli litli Einarsson urðu að láta sér bronsið nægja.

Image
Silfurdrengir og sá best klæddi.

Dís Sigurgeirsdóttir og Timme Dossing héldu tómhent heim. Jón Óskar var loks valinn best klæddi kylfingurinn, enda ekki seinna að vænna, maðurinn að flytja til Íslands og búinn að verja þúsundum evra í golffatnað undanfarin ár. Stóri Geir hreppti nándarverðlaunin með þokkalegu upphafshöggi á fimmtu holu, en samkvæmt mælingu eftirlitsdómara nam kúludruslan staðar 10 metrum frá holukjafti. Kalli litli var valinn efnilegasti kylfingurinn, og hafði þar betur í baráttunni við Timme danska, sem skildi ekki hinar flóknu íslensku kosningareglur og kaus óvart Kalla með háværu “ja tak skal du ha” þegar hann hélt að hann væri að þiggja bjór frá Kalla.

Bronsverðlaunahafar og "litli" mótstjórinn
Bronsverðlaunahafar og “litli” mótstjórinn

Mótstjóri var Guðlaugur Bergmundsson og veitti hann verðlaun við hátíðlega athöfn að móti loknu, en forseti afhenti nýkrýndum gullverðlaunahöfum farandbikar félagsins, til varðveislu í eitt ár. Áður en yfir lauk var drukkið minni Dalastúlkna, haft á orði að mikill missir væri að því að frú Katrín Magnúsdóttir væri ekki meðal þátttakenda, og ákveðið að blása til haustmóts í lok september eða byrjun október.

Skyrgámur og Stúfur í höfuðborg Evrópu

Ómar Ali er ekkert hræddur!
Ómar Ali er hvergi smeykur!

Árlegt jólaball Íslandsfélagsins var haldið í húsakynnum EFTA sunnudaginn 9. desember. Skyrgámur og Stúfur mættu með gjafir, söng og gleði. Veitingar á hlaðborðinu voru veglegar eins og við var að búast og ungir sem aldnir fóru heim með jól í hjarta.

Við óskum öllum félagsmönnum nær og fjær gleðilegra jóla og hlökkum til samvista á nýju ári.

Ótrúlegt en satt! Forsetinn fimmtugur

með pakkannÞann 7. nóvember síðastliðinn varð forseti Íslandsfélagsins í Belgíu, Jónas Jóhannsson, fimmtugur og þótti félagsmönnum ástæða til að heiðra hann af því tilefni. Ákveðið var að slá tvær flugur í einu höggi og kenna honum að drekka gott kaffi enda Carrefour hryllingurinn honum ekki samboðinn. Keypt var eðalkaffivél og hún afhent við hátíðlega athöfn að lokinni fótboltaæfingu Bestham í Waterloo sunnudaginn 11. nóvember.

Það er auðvitað ótrúlegt að forsetinn skuli vera orðinn fimmtugur. Maðurinn hefur starfsþrek og útlit á við sér mun yngri mann. Sú er þetta skrifar telur að félagsstörfin haldi forsetanum ungum og hefur þá trú að það sé því ekki óhætt fyrir hann að hætta afskiptum af þeim. Áfram Jónas!

Stríð og friður: Haustferð Íslandsfélagsins 15. – 16. september 2012

Að þessu sinni var haustferð Íslandsfélagsins á stríðsslóðir við Ypres. Þátttakendur voru 36, þar af 12 börn á aldrinum 0-12 ára. Ferðin hófst á Hooge Crater safninu, sem er lítið einkasafn. Síðan var ekið til Tyne Cot sem er stærsti herkirkjugarður Breska samveldisins. Hann er afar bjartur og blómum prýddur og lítið skyggir á útsýnið þaðan. Legsteinarnir eru hvítir og öll stemning í nokkru ósamræmi við þær miklu hörmungar sem urðu til þess að allir þessir ungu menn létu lífið.

Eftir hádegisverð á aðaltorginu í Ypres skoðuðum við Yorkshire Trench Dugout svo og Essex Farm kirkjugarðinn þar sem er minnisvarði um John McCrae. Hann var kanadískur læknir og skáld og þekktur fyrir kvæðið In Flanders Field sem hann orti eftir að hafa misst vin sinn Alexis Helmer í orrustu við Ypres.

Sameiginlegur kvöldverður var á veitingastaðnum Pacific Island í Ypres og að honum loknum var haldið til Menin Gate. Þar hefur, síðan árið 1928, verið haldin minningarathöfn á hverju kvöldi um týnda hermenn þar sem blásið er í herlúðra (The Last Post).

Langemark

Sunnudagsmorguninn hófst á heimsókn í Flanders Field safnið sem er einstaklega áhrifamikið safn. Við undirleik þungrar og einhæfrar tónlistar er stríðshryllingnum dembt yfir gestina með myndum, leikþáttum, persónulegum munum hermanna og fleiru. Þetta er safn sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Næsta stopp var Langemark, þar sem hátt í 45000 Þjóðverjar eru grafnir. Þar ríkti önnur stemning en í Tyne Cot. Há eikartré veita skjól og skugga, legsteinarnir eru úr dökkum stein og engin blóm á leiðunum. Það var ekki laust við að manni fyndist þetta passa betur tilefninu en fíneríið í Tyne Cot.

Sprengigígur við Hill 60

Eftir stopp við Hill 60 þar sem hópurinn gekk um gamlan vígvöll og snæddi hádegisverð var farið í síðasta kirkjugarð ferðarinnar, Railway Dugouts Burial Grounds, þar sem nokkrir Vestur-Íslendingar hvíla.

Þar lásu Nick Hannigan og Árni Snævarr ljóðin In Flanders Field eftir John McCrae og Grass eftir Carl Sandburg í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar. Þetta var viðeigandi endir á frábærri ferð.

Það var slegið á ýmsa tilfinningastrengi í haustferðinni að þessu sinni. Heimsóknir í kirkjugarða og vígvelli og á hið stórkostlega safn In Flanders Fields Museum í Ypres, svo og hugleiðingar um brjálsemina sem felst í að senda alla þessa ungu menn á vígvellina vöktu upp trega og depurð. En skemmtilegur félagsskapur og dásamlegt veður voru gott mótvægi og allir fóru glaðir heim. Það er óhætt að mæla með ferð á stríðsslóðir við Ypres. Ekki þó í regni og dumbungi; það yrði ábyggilega of þunglyndislegt.

Matthías G. Pálsson var frábær leiðsögumaður og var klyfjaður lesefni og fróðleik. Enn og aftur sannaði Jónas forseti sig sem ferðafrömuður og skipuleggjandi. Þeim eru færðar bestu þakkir svo og öllum þeim sem tóku þátt í þessari skemmtilegu ferð.

Íslandsfélagið vill að lokum mæla sérstaklega með Main Street Hotel í Ypres. Einungis 3 stjörnur en það er ekki á hverjum degi sem maður fær kampavín og foie gras í morgunverð!

Hátíðarhöld 17. júní 2012

Sunnudaginn 17. júní sl. stóð Íslandsfélagið fyrir þjóðhátíðarsamkundu við skandinavíska skólann í Waterloo. Dagskráin var með hefðbundnum hætti og hófst með kvennahlaupi (sjá frétt á heimasíðunni).

Síðan tók við grillveisla og auðvitað var boðið upp á SS pylsur og Myllubrauð svo og drykkjarföng af ýmsum toga. 

Formlegri dagskrá lauk með ávarpi fjallkonunnar, sem að þessu sinni var Björk Óskarsdóttir, og fjöldasöng.

Hátíðin var vel sótt og líklega voru um 80 mættir þegar flest var, bæði nýir félagar og eldri svo og gestir í heimsókn frá Íslandi.  

Þótt það megi furðu sæta, miðað við það sem af er sumri í Belgíu, léku veðurguðirnir við okkur og það kom ekki dropi úr lofti!

Golfmót Íslandsfélagsins í Belgíu „Æsland Ópen” 2012

Sunnudaginn 10. júní fór fram hið árlega golfmót Íslandsfélagsins, „Æsland Ópen”, sem nú var haldið þriðja sinni og fór fram á velli Overijse Golf Club, Gemslaan 55 3090 Overijse. Mótið hófst kl. 13, í blíðskaparveðri og voru 16 kylfingar skráðir til leiks, þar af fimm „útlendingar” sem komu ofan af Fróni til þess eins að keppa um gullið. Leiknar voru níu 9 holur samkvæmt „Texas Scramble” fyrirkomulaginu, en þá spila tveir og tveir saman, slá betri bolta síns teymis og halda sameiginlegt skor. Gafst þannig óvönum kylfingum á borð við Einar Símonarson tækifæri til að spila með sér reyndari mönnum og hafa gagn og gaman af.

Veitt voru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin, auk þess sem best klæddi kylfingurinn var leystur út með veglegri gjöf, sem og sá kylfingur sem átti besta nándarhöggið á áttundu holu. Er skemmst frá því að segja, að Jón Óskar Sólnes og Einar Símonarson hrepptu gullið, silfrið rann til Guðlaugs Bergmundssonar og sonar hans Kára, en Gunnar Geirsson og Gestur Ásólfsson urðu að láta sér bronsið nægja. Dalastúlkan Katrín Magnúsdóttir var valin best klæddi kylfingurinn og hafnfirðingurinn Eiríkur Þorvarðarson hreppti nándarverðlaunin með frábæru upphafshöggi á áttundu holu, en samkvæmt mælingu Jónasar Jóhannssonar eftirlitsdómara nam kúludruslan staðar aðeins 15,31 metrum frá holukjafti.

Mótstjóri var Guðlaugur Bergmundsson og veitti hann verðlaun við hátíðlega athöfn að móti loknu. Til stóð að afhenda gullverðlaunahöfunum nýjan og stórglæsilegan farandbikar Íslandsfélagsins, en þegar á reyndi kom í ljós að þeir höfðu ekið á brott í sigurvímu og fengu því dolluna boðsenda daginn eftir. Í refsiskyni ákvað hinn skeleggi mótstjóri, að undirlagi frú Katrínar Magnúsdóttur, að svipta drengina öðrum tveggja gullpeninga og var hann þess í stað afhentur Gabríelu Markúsdóttur, sem þótti standa sig einkar vel á sínu fyrsta golfmóti, en þess má og geta að hún er barnabarn frú Katrínar.