Þorrablót Íslandsfélagsins 6. febrúar nk.

Nú er að seljast upp á þorrablót Íslandsfélagsins, sem haldið verður föstudaginn 6. febrúar í hinum rómaða veislusal Bouche a Oreille, Felix Hap Straat 11, 1040 Brussel. Blót félagsins eru þekkt um víða veröld og þykja öfundarefni annarra Íslendingafélaga.

Dagskrá: Kl. 19 Móttaka, fordrykkur og ljúfir tónar. Kl. 20 hefst borðhald með hinu annálaða hlaðborði Eyþórs Kristjánssonar meistarakokks, sem galdrar fram hangiket með kartöflum og uppstúf, saltket, plokkfisk, reyktan lunda, grafna langreyð, reyktan og grafinn lax, sviðakjamma, úrval súrmetis og síldarrétta, flatkökur, rúgbrauð, harðfisk og hákarl, svo fátt eitt sé nefnt. Boðið er upp á brennivín, léttvín, bjór og gosdrykki, eins og hver getur í sig látið, en borðhaldi lýkur með kaffi og heimsins bestu veislutertu frá La Boulangerie Arna. Hinn landskunni Gísli Einarsson “út og suður” annast veislustjórn. Nýlendukórinn stígur á stokk og tekur nokkur vel valin lög. Minni karla og kvenna verður á sínum stað, sem og happdrættið góða. Loks má ekki gleyma hinum óborganlega Ingó Veðurguði, sem mun syngja og skemmta gestum eins og honum er einum lagið. Kl. 23:00 rís DJ Súrsson vonandi undan feldi og sér til þess að gestir fjölmenni á dansgólfið, en veislunni lýkur kl. 03.

Miðaverð er 75 € fyrir þá sem greitt hafa árgjald til félagsins 2014-2015, sem og fyrir námsmenn og starfsnema yngri en 30, en 100 € fyrir aðra. Innifalið er happdrættismiði, fordrykkir, matur, brennivín, öl, léttvín og óáfengir drykkir til kl. 23, en þá hefst hefðbundin barþjónusta á vegum staðarhaldara.

Skráning fer fram gegnum islandsfelag@gmail.com. Vinsamlegast takið fram fullt nafn/nöfn hlutaðeigandi gesta, sem og óskir um að sitja saman til borðs.

Skráningu lýkur í síðasta lagi mánudaginn 2. febrúar og ber eigi síðar að greiða miðaverð inn á reikning félagsins: ING 310-1074359-73 (BE-27 3101 0743 5973). Athugið að miðar eru aðeins seldir í forsölu.

Nánari upplýsingar veitir Jónas Jóhannsson í 04999-42-735 og gegnum islandsfelag@gmail.com.

Hlökkum til að sjá ykkur.
Stjórnin

Jólaball 2013

Ekki hefur verið mikið um viðburði á vegum félagsins þetta haustið en nú dregur að jólum og þá lifnar starfsemin eilítið við.

jólatrésdans 2013Sunnudaginn 8. desember 2013 var hið árlega nýlendujólaball haldið í Brussel. Á jólunum er haldið í hefðir og því var ballið auðvitað í húsakynnum EFTA eins og áður og allt skipulag með hefðbundnum hætti. Jólasveinarnir voru vitaskuld íslenskir þó þeir væru klæddir á útlenda vísu.

veitingar jólaball 2013

DSC_0111
Karim Leó
Nei, nei þetta eru ekki jólasveinar. Annar lagaði kaffið og hinn stjórnaði öllu.
Nei, nei þetta eru ekki jólasveinar. Annar lagaði kaffið og hinn stjórnaði öllu.

 

 

 

 

 

Góður rómur var gerður að ólátum sveinanna, gjöfum, söng viðstaddra svo og afburða veitingum.

Þeir sem aldur hafa til munu svo vonandi mæta á árlegt dansiball fullorðinna, þorrablótið sem haldið verður i febrúarbyrjun. Undirbúningur er löngu hafin svo blótið megi lukkast sem best.

Aðalfundur Íslandsfélagsins 8. mars 2013

Edward VII Emperor of India
Játvarður 7., keisari Indlands

Aðalfundur Íslandsfélagsins í Belgíu var haldinn í gær, föstudaginn 8. mars. Ellefu mættu á fundinn, sem er 10% aukning frá síðasta aðalfundi, og munar þar af til vill mestu að Þórir Ibsen sendiherra mætti með bænaskjal undiritað af 82 nýlendubúum, með áskorun til forseta að sitja áfram í að minnsta kosti eitt kjörtímabil.

Skýrslur félagsins og Íslenska skólans voru kynntar, farið yfir ársreikninga og þeir samþykktir einróma. Því næst var tekin fyrir lagabreytingartillaga frá forseta, þess efnis að fjölgað yrði í stjórn félagsins úr fimm í sex fulltrúa, og var sú tillaga einnig samþykkt.

Þessu næst var gengið til forsetakjörs, og þar sem enginn bauð sig fram var Jónas Jóhannsson endurkjörinn við dynjandi lófatak. Hrappur Magnússon og Karl Trausti Einarsson gáfu ekki kost á sér til endurkjörs í stjórn, en aðalfundur kaus eftirtalda til stjórnarsetu starfsárið 2013-2014: Rósu Rut Þórisdóttur, Maríu Kristínu Jónsdóttur, Geir Þórhallsson, Elínu Pálsdóttur og Elínu Önnu Jónasdóttur. Þannig sitja nú fjórar valkyrjur í stjórn, á móti tveimur körlum. Hrappi og Karli eru þökkuð fórnfús störf í þágu félagsins, en Karl mun þó koma áfram að félagsstarfinu, enda hann og Einar Símonarson einróma kjörnir endurskoðunarmenn félags og skóla árið 2013-2014.

Aðalfundur ákvað að félagsgjöld skyldu óbreytt, og eru þau því aðeins 50 evrur fyrir hvern félagsmann 18 ára og eldri, þó þannig að námsmenn og starfsnemar yngri en 30 ára greiða aðeins hálft gjald, eða 25 evrur.

Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum voru tekin fyrir ,,önnur mál”og meðal annars rætt um að ný stjórn myndi ekki hefja formlega innheimtu árgjalds fyrr en í september, samhliða því að starfsemi íslenska skólans færi af stað. Þá var gerður góður rómur að því að félag og skóli myndu blása til sameiginlegrar grillveislu fyrir alla nýlendubúa nú á vormánuðum, kynna starfsemi sína, og bjóða nýbúa formlega velkomna í nýlenduna okkar.

Undir lok fundar, þegar þreyta hafði sest í fundarmenn, stakk forseti upp á því að lögum félagsins yrði breytt á þann veg að í stað ,,forseta” kæmi ,,keisari”, sem sæti þá ævilangt við völd, en sú tillaga var felld með tíu atkvæðum á móti einu.

Þótti nú sýnt að fleira yrði ekki gert vitlegt á aðalfundi og var honum slitið við svo búið. Skýrsla stjórnar fylgir með hér í viðhengi svo og ítarlegri fundargerð forseta.

Ársskýrsla-2013  Aðalfundur2013 fundargerð

Stríð og friður: Haustferð Íslandsfélagsins 15. – 16. september 2012

Að þessu sinni var haustferð Íslandsfélagsins á stríðsslóðir við Ypres. Þátttakendur voru 36, þar af 12 börn á aldrinum 0-12 ára. Ferðin hófst á Hooge Crater safninu, sem er lítið einkasafn. Síðan var ekið til Tyne Cot sem er stærsti herkirkjugarður Breska samveldisins. Hann er afar bjartur og blómum prýddur og lítið skyggir á útsýnið þaðan. Legsteinarnir eru hvítir og öll stemning í nokkru ósamræmi við þær miklu hörmungar sem urðu til þess að allir þessir ungu menn létu lífið.

Eftir hádegisverð á aðaltorginu í Ypres skoðuðum við Yorkshire Trench Dugout svo og Essex Farm kirkjugarðinn þar sem er minnisvarði um John McCrae. Hann var kanadískur læknir og skáld og þekktur fyrir kvæðið In Flanders Field sem hann orti eftir að hafa misst vin sinn Alexis Helmer í orrustu við Ypres.

Sameiginlegur kvöldverður var á veitingastaðnum Pacific Island í Ypres og að honum loknum var haldið til Menin Gate. Þar hefur, síðan árið 1928, verið haldin minningarathöfn á hverju kvöldi um týnda hermenn þar sem blásið er í herlúðra (The Last Post).

Langemark

Sunnudagsmorguninn hófst á heimsókn í Flanders Field safnið sem er einstaklega áhrifamikið safn. Við undirleik þungrar og einhæfrar tónlistar er stríðshryllingnum dembt yfir gestina með myndum, leikþáttum, persónulegum munum hermanna og fleiru. Þetta er safn sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Næsta stopp var Langemark, þar sem hátt í 45000 Þjóðverjar eru grafnir. Þar ríkti önnur stemning en í Tyne Cot. Há eikartré veita skjól og skugga, legsteinarnir eru úr dökkum stein og engin blóm á leiðunum. Það var ekki laust við að manni fyndist þetta passa betur tilefninu en fíneríið í Tyne Cot.

Sprengigígur við Hill 60

Eftir stopp við Hill 60 þar sem hópurinn gekk um gamlan vígvöll og snæddi hádegisverð var farið í síðasta kirkjugarð ferðarinnar, Railway Dugouts Burial Grounds, þar sem nokkrir Vestur-Íslendingar hvíla.

Þar lásu Nick Hannigan og Árni Snævarr ljóðin In Flanders Field eftir John McCrae og Grass eftir Carl Sandburg í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar. Þetta var viðeigandi endir á frábærri ferð.

Það var slegið á ýmsa tilfinningastrengi í haustferðinni að þessu sinni. Heimsóknir í kirkjugarða og vígvelli og á hið stórkostlega safn In Flanders Fields Museum í Ypres, svo og hugleiðingar um brjálsemina sem felst í að senda alla þessa ungu menn á vígvellina vöktu upp trega og depurð. En skemmtilegur félagsskapur og dásamlegt veður voru gott mótvægi og allir fóru glaðir heim. Það er óhætt að mæla með ferð á stríðsslóðir við Ypres. Ekki þó í regni og dumbungi; það yrði ábyggilega of þunglyndislegt.

Matthías G. Pálsson var frábær leiðsögumaður og var klyfjaður lesefni og fróðleik. Enn og aftur sannaði Jónas forseti sig sem ferðafrömuður og skipuleggjandi. Þeim eru færðar bestu þakkir svo og öllum þeim sem tóku þátt í þessari skemmtilegu ferð.

Íslandsfélagið vill að lokum mæla sérstaklega með Main Street Hotel í Ypres. Einungis 3 stjörnur en það er ekki á hverjum degi sem maður fær kampavín og foie gras í morgunverð!

Íslenskukennsla í Brussel.

Íslandsfélagið vill vekja athygli á Skandinavíska tungumálaskólanum á Rue Royale (sjá hér www.scandinavianschool.be) en þar er meðal annars kennd íslenska. Rósa Þórisdóttir annast íslenskukennsluna í Skandinavíska tungumálaskólanum og í vor hafa 17 nemendur sótt íslenskutíma. Flestir, eða 12, eru byrjendur. Á síðasta ári voru um 25 nemendur í íslensku á hverri önn. Það er því ljóst að íslenskan vekur nokkurn áhuga í Brussel. Það er sjálfsagt að benda áhugasömum vinum, kunningjum og mökum á þennan möguleika til læra íslensku.

Mynd: miguelb´s photostream Flickr: Creative Commons

Dagskrá Íslandsfélagsins

Félagsmönnum ætti ekki að leiðast því nóg er að gera á næstunni. Skráið strax í dagbækurnar, tölvurnar og símana það sem þið hafið áhuga á að taka þátt í.

  1. Laugardagurinn 2. júní – Vorferð til Champagne í Frakklandi. Skoðunarferð á vínbúgarð(a) / barnapössun/ gisting á staðnum / grill og kvöldvaka (skráning er hafin).
  2. Sunnudagurinn 10. júní – Hið árlega golfmót félagsins „Æsland Ópen” (sjá auglýsingu á fésbók undir viðburðir). Mótsskráning auglýst fljótlega. Hámarksfjöldi: 20 kylfingar
  3. Laugardagurinn 16. júní – Landsleikur Hollands og Íslands í undankeppni HM 2013 í handknattleik (sjá auglýsingu á fésbók).
  4. Sunnudagurinn 17. júní – Hin árlegu 17. júní hátíðahöld á lóð skandinavíska skólans í Waterloo. Kvennahlaup / fjallakonan / íslensk grillveisla / leikir (nánar auglýst síðar). Skráning er hafin í hlaupið (sjá heimasíður og fésbók).

Atburðir hausts og vetrar 2012 sem þegar hafa verið ákveðnir eru þessir:

  1. September eða október: Dagsferð á stríðsminjasvæði í Ypre undir fararstjórn Matthíasar Pálssonar og Jóns Óskars Sólnes.
  2. Október: Hin árlega eplatínslufeð
  3. Sunnudagurinn 9. desember – Hið árlega jólaball í húsnæði EFTA, frá kl. 15-17.
  4. Föstudagurinn 8. febrúar – Hið árlega þorrablót félagsins, haldið á sama stað og undanfarin ár, en nú á mun lægra verði en áður!

Place Lúx samkomur verða svo áfram á sínum stað.

Stjórnin

Ný lög Íslandsfélagsins

Á aðalfundi Íslandsfélagsins 2. mars sl. voru samþykktar minniháttar breytingar á lögum félagsins. Fækkað var í stjórn og formaður félagsins heitir nú forseti enda er sá titill vinsæll um þessar mundir. Nýju lögin má finna efst á síðunni. Breytingarnar eru gefnar til kynna með skáletri innan hornaklofa svo auðvelt er að koma auga á þær.

Fyrstu fréttir af nýrri stjórn Íslandsfélagsins

Ný stjórn Íslandsfélagsins, sem kosin var á aðalfundinum í marsbyrjun, hefur tekið til starfa. Stjórnin skipti með sér störfum á fyrsta fundi sínum þann 31. mars sl. og var Hrappur kjörinn varaforseti, Karl gjaldkeri, María ritstjóri heimasíðunnar og Rósa fulltrúi í skólanefnd. Forseti, kosinn á aðalfundi, er Jónas.

Helstu viðburðir framundan hjá félaginu eru ferð til Champagne-héraðsins laugardaginn 2. júní, golfmótið „Æsland Ópen“ sunnudaginn 10. júní í Overijse og 17. júní hátíðarhöldin ásamt kvennahlaupi. Skráning í golfmótið er hafin á Facebook (http://www.facebook.com/events/264463580306572/)

Heildardagskrá starfsársins verður kynnt innan skamms.

Víðtæk mótmæli í Brussel á morgun föstudag!

Íslandsfélagið vekur athygli á að verkalýðsfélög í Brussel munu standa fyrir mótmælaðgerðum nk. föstudag, 2. desember. Er ljóst að aðgerðirnar munu valda röskun á almenningssamgöngum, þ.e. neðanjarðarlestum, sporvögnum og strætisvögnum, þar sem stjórnendur þessara samgöngutækja taka sumir þátt í mótmælunum.
Jafnframt má búast við miklum umferðartöfum á þeim svæðum sem mótmælendur fara um, en samkvæmt heimildum okkur mun það vera svæðið fra Gare du Nord til Gare du Midi. Göngin á innri hringnum (Léopold II – Rogier – Botanique – Madou – Arts/Loi) verða lokuð í báðar áttir um einhvern tíma.
Lögregla hvetur ökumenn til að ferðast ekki á innri hringnum eða í miðbæ Brussel á þeim tíma sem mótmælin standa, eða frá kl. 9:30 – 14:00, en umferðartafir geta þó varað lengur.
Stjórnin