Kvennahlaup ÍSÍ

Kæru landar

Nú er komið að hinu árlega Kvennahlaupi ÍSÍ og Sjóvá.

Að sjálfssögðu munum við ekki láta okkar eftir liggja og ætlum því að fjölmenna við Skandinavíska skólann í Waterloo kl. 13:00 sunnudaginn 15. júní nk.

Í framhaldinu verða svo 17. júní hátíðarhöldin haldin hátíðleg.

Hringurinn sem farinn verður er u.þ.b. 3 km. og hvetjum við alla að taka þátt, stórar stelpur, litlar stelpur, stóra stráka og litla stráka. Hvort sem þér finnist ekki taka því að reima á þig skóna eða óar við vegalengdinni þá mun hver og einn fara á sínum hraða, hlaupandi, gangandi, í kerru eða jafnvel á hestbaki á pabba.

Allar nánari upplýsingar verða settar inn á viðburðarsíðuna inni á facebook https://www.facebook.com/events/1461247224109129/?fref=ts

Nauðsynlegt er að tilkynna um þátttöku og bolastærð í tölvupósti á islandsfelag@gmail.com fyrir lok föstudagsins 16. maí nk.

Þátttökugjald EUR 10,- óskast lagðar inn á reiknings Íslandsfélagsins fyrir lok 16. maí

310-1074359-73 /  BE27 3101 0743 5973

Stjórnin

10306539_10152113056275794_547971235495084820_n

Haustgolfmót Íslandsfélagsins 2013

Image

Laugardaginn 21. september var haustgolfmót Íslandsfélagsins haldið á Avernas golfvellinum. Þátttakendur voru 10, átta karlar og tvær konur. Þórir Þórisson kom alla leið frá Frakklandi til þess eins að taka þátt en hann er mjög liðtækur golfari. Sem fyrr var spilað samkvæmt Texas Scramble kerfinu svo ekki var óþægilega mikil pressa á þeim óvanari í hópnum, sem voru þó nokkrir.

Veðrið lék við golfarana og mönnum hljóp kapp í kinn í fallegu umhverfi og góðum félagsskap. Metnaðarfyllstu þátttakendurnir lýstu því yfir að móti loknu að æfingar fyrir næsta mót hæfust strax eftir helgina.

ImageImageSigurvegarar að þessu sinni voru þeir Jón Örn Brynjarsson og Stefan Lechler. Þeir sigruðu þó naumlega því þeir voru einungis 0,1 stigi hærri en félagarnir Einar Símonarson og Robert. Jón Örn Brynjarsson fékk ennfremur verðskulduð verðlaun fyrir framúrskarandi golfklæðnað. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd tónaði allt saman; kylfur, poki, buxur og síðast en ekki síst, takkarnir undir skónum. Aðrir golfarar geta svo sannarlega tekið dirfsku og litagleði Jóns Arnar sér til fyrirmyndar.

Golfmót Íslandsfélagsins í Belgíu “Æsland Ópen” 2013

Image
Keppnisfólkið

Sunnudaginn 9. júní fór fram hið árlega golfmót Íslandsfélagsins, “Æsland Ópen”, sem nú var haldið í fjórða sinn og fór fram á Avernas golfvellinum í Hannut. Mótið hófst kl. 13 og voru átta kylfingar skráðir til leiks. Leiknar voru níu holur samkvæmt “Texas Scramble” fyrirkomulaginu, en þá spila tveir og tveir saman, slá betri bolta síns teymis og halda sameiginlegt skor. Gafst þannig óvönum kylfingum á borð við Stóra Geir tækifæri til að spila með sér reyndari mönnum og hafa gagn og gaman af.

Image
Gulldrengirnir

Veitt voru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin. Er skemmst frá því að segja, að Stóri Geir Þórhallsson og Hafsteinn Hössler Einarsson hrepptu gullið, silfrið rann til Jóns Óskars Sólnes og Einars Símonarsonar, en Guðlaugur Bergmundsson og Kalli litli Einarsson urðu að láta sér bronsið nægja.

Image
Silfurdrengir og sá best klæddi.

Dís Sigurgeirsdóttir og Timme Dossing héldu tómhent heim. Jón Óskar var loks valinn best klæddi kylfingurinn, enda ekki seinna að vænna, maðurinn að flytja til Íslands og búinn að verja þúsundum evra í golffatnað undanfarin ár. Stóri Geir hreppti nándarverðlaunin með þokkalegu upphafshöggi á fimmtu holu, en samkvæmt mælingu eftirlitsdómara nam kúludruslan staðar 10 metrum frá holukjafti. Kalli litli var valinn efnilegasti kylfingurinn, og hafði þar betur í baráttunni við Timme danska, sem skildi ekki hinar flóknu íslensku kosningareglur og kaus óvart Kalla með háværu “ja tak skal du ha” þegar hann hélt að hann væri að þiggja bjór frá Kalla.

Bronsverðlaunahafar og "litli" mótstjórinn
Bronsverðlaunahafar og “litli” mótstjórinn

Mótstjóri var Guðlaugur Bergmundsson og veitti hann verðlaun við hátíðlega athöfn að móti loknu, en forseti afhenti nýkrýndum gullverðlaunahöfum farandbikar félagsins, til varðveislu í eitt ár. Áður en yfir lauk var drukkið minni Dalastúlkna, haft á orði að mikill missir væri að því að frú Katrín Magnúsdóttir væri ekki meðal þátttakenda, og ákveðið að blása til haustmóts í lok september eða byrjun október.

Ótrúlegt en satt! Forsetinn fimmtugur

með pakkannÞann 7. nóvember síðastliðinn varð forseti Íslandsfélagsins í Belgíu, Jónas Jóhannsson, fimmtugur og þótti félagsmönnum ástæða til að heiðra hann af því tilefni. Ákveðið var að slá tvær flugur í einu höggi og kenna honum að drekka gott kaffi enda Carrefour hryllingurinn honum ekki samboðinn. Keypt var eðalkaffivél og hún afhent við hátíðlega athöfn að lokinni fótboltaæfingu Bestham í Waterloo sunnudaginn 11. nóvember.

Það er auðvitað ótrúlegt að forsetinn skuli vera orðinn fimmtugur. Maðurinn hefur starfsþrek og útlit á við sér mun yngri mann. Sú er þetta skrifar telur að félagsstörfin haldi forsetanum ungum og hefur þá trú að það sé því ekki óhætt fyrir hann að hætta afskiptum af þeim. Áfram Jónas!

Golfmót Íslandsfélagsins í Belgíu „Æsland Ópen” 2012

Sunnudaginn 10. júní fór fram hið árlega golfmót Íslandsfélagsins, „Æsland Ópen”, sem nú var haldið þriðja sinni og fór fram á velli Overijse Golf Club, Gemslaan 55 3090 Overijse. Mótið hófst kl. 13, í blíðskaparveðri og voru 16 kylfingar skráðir til leiks, þar af fimm „útlendingar” sem komu ofan af Fróni til þess eins að keppa um gullið. Leiknar voru níu 9 holur samkvæmt „Texas Scramble” fyrirkomulaginu, en þá spila tveir og tveir saman, slá betri bolta síns teymis og halda sameiginlegt skor. Gafst þannig óvönum kylfingum á borð við Einar Símonarson tækifæri til að spila með sér reyndari mönnum og hafa gagn og gaman af.

Veitt voru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin, auk þess sem best klæddi kylfingurinn var leystur út með veglegri gjöf, sem og sá kylfingur sem átti besta nándarhöggið á áttundu holu. Er skemmst frá því að segja, að Jón Óskar Sólnes og Einar Símonarson hrepptu gullið, silfrið rann til Guðlaugs Bergmundssonar og sonar hans Kára, en Gunnar Geirsson og Gestur Ásólfsson urðu að láta sér bronsið nægja. Dalastúlkan Katrín Magnúsdóttir var valin best klæddi kylfingurinn og hafnfirðingurinn Eiríkur Þorvarðarson hreppti nándarverðlaunin með frábæru upphafshöggi á áttundu holu, en samkvæmt mælingu Jónasar Jóhannssonar eftirlitsdómara nam kúludruslan staðar aðeins 15,31 metrum frá holukjafti.

Mótstjóri var Guðlaugur Bergmundsson og veitti hann verðlaun við hátíðlega athöfn að móti loknu. Til stóð að afhenda gullverðlaunahöfunum nýjan og stórglæsilegan farandbikar Íslandsfélagsins, en þegar á reyndi kom í ljós að þeir höfðu ekið á brott í sigurvímu og fengu því dolluna boðsenda daginn eftir. Í refsiskyni ákvað hinn skeleggi mótstjóri, að undirlagi frú Katrínar Magnúsdóttur, að svipta drengina öðrum tveggja gullpeninga og var hann þess í stað afhentur Gabríelu Markúsdóttur, sem þótti standa sig einkar vel á sínu fyrsta golfmóti, en þess má og geta að hún er barnabarn frú Katrínar.

Kvennahlaup 17. júní

Hið árlega Sjóvár kvennahlaup ÍSÍ var haldið í blíðskaparveðri þann 17. júní við skandinavíska skólann í Waterloo. Að lokinni örstuttri upphitun var sprett úr spori og var talsverður keppnisandi í fólki. Þátttakendur voru um 40; konur, karlar og börn á öllum aldri. Flestir þeirra eru Belgíubúar en einnig hlupu gestkomandi með. Sprettharðastur reyndist unglingur í sumarfríi frá Íslandi en við tölum ekki meira um það því í svona hlaupi sigra allir sem taka þátt.

Leynist í þér hlaupari?

Meðal Íslendinga í Brussel eru nokkrir hlauparar. Konur virðast vera þar í meirihluta og hafa látið nokkuð til sín taka í hinum ýmsu hlaupum í Brussel undanfarið. Þær hlaupa mishratt, sumar eru mjög sprettharðar en aðrar fara hægar yfir, enda nýbyrjaðar og eldri. Nema hvort tveggja sé! Þær eiga það þó allar sameiginlegt að taka framförum jafnt og þétt og verða sífellt metnaðarfyllri í hlaupaafrekum sínum.

Í Brussel er fjöldinn allur af skipulögðum hlaupum allt árið og frábær aðstaða til að æfa hlaup. Auðvitað er hægt að hlaupa um götur borgarinnar en einnig er mikið af grænum svæðum þar sem yndislegt er að stunda útivist (Cambre skógur, Soignes skógurinn, Parc du Cinquantenaire, Parc de Bruxelles/Parc Royal). Einnig er indælt að hlaupa umhverfis Ixelles vötnin.

Ef þú hefur áhuga á að heyra meira um hlaup í Brussel eða komast í samband við hlaupara er tilvalið að gera það í athugasemd hér fyrir neðan. Einnig má benda á Facebook síðu Íslandsfélagsins.

Mynd: Elín Pálsdóttir

Fræknir fótboltakappar

Undanfarin ár hefur hópur foreldra og barna hist einu sinni í viku og spilað fótbolta undir merkjum Best Ham. Haustið 2011 tók félagið í notkun nýjan heimavöll við Scandinavian School of Brussels (SSB), að Square d´Argenteuil 5, B-1410 Waterloo, en þar er og til húsa Íslenski skólinn. Leiktímabilið er frá september til og með júní ár hvert (hlé í skólaleyfum) og ávallt leikið á sunnudögum, frá kl. 11:00-12:30. Allir sem hafa áhuga á fótbolta og hafa náð 10 ára aldri eru velkomnir að spila með Best Ham, en liðið skipa nú 12-16 einstaklingar (konur, karlar, unglingar og börn) frá fimm þjóðlöndum; Íslandi, Danmörku, Grikklandi, Belgíu og Englandi. Þeir sem hafa áhuga á að bætast í hópinn er bent á að hafa samband við Jónas Jóhannsson (iramod@yahoo.com) en félagsgjöld eru um 10 evrur á mánuði fyrir hverja fjölskyldueiningu (ef tveir eða fleiri spila úr sömu fjölskyldu er aðeins greitt eitt gjald). Þjálfari Best Ham, liðsstjórnandi, og fyrirliði er Jónas Jóhannsson. Félagið er sjálfstæð rekstrareining, en starfar í nánu sambandi við Íslandsfélagið í Belgíu.

Kvennahlaupið

Hið árlega Sjóvár kvennahlaup ÍSÍ verður haldið í tengslum við 17. júní hátíðahöldin í Waterloo á lóð Skandinavíska skólans (Square d’Argenteuil 5, 1410 Waterloo). Hlaupið verður sunnudaginn 17. júní og hefst kl. 13. Hlaupnir verða 3 km sem ætti að vera vegalengd við flestra hæfi. Við minnum á að þrátt fyrir heiti hlaupsins eru karlmenn á öllum aldri velkomnir!

Þátttakendur skrái sig á netfang félagsins (islandsfelag@gmail.com) og greiði skráningargjald, 9 evrur á mann (bolur og verðlaunapeningur innifalin) inn á reikning Íslandsfélagsins við skráningu, ING 310-1074359-73. Ekkert er greitt fyrir kerrubörn sem ekki fá bol. Skráningu lýkur föstudaginn 25. maí!

Munið að tilgreina bolastærð en að þessu sinni munu bolirnir víst verða fallega rauðir (í viðhengi sjást bolastærðir). Bolastærðir

Að hlaupi loknu hefjast 17. júní hátíðahöldin, og er þá tilvalið fyrir hlaupara að verðlauna sjálfa sig og biðja um „eina með öllu“, nú eða margar með öllu, en að venju býður félagið til rammíslenskrar pylsuveislu.

Stjórnin