Ó nei, það er allt of seint að skrá sig á Þorrablótið!

Árvisst Þorrablót Íslandsfélagsins í Belgíu var haldið föstudaginn 7. febrúar að viðstöddum nærri 100 gestum. Dagskráin var með hefðbundnu sniði og á sama stað og hin síðari ár, eða á Le Bouche à Oreille. Að venju lukkaðist samkoman vel enda gengur skipulagið orðið eins og vel smurð vél undir styrkri stjórn forsetans.

hlaðborð þorrablót 2014
Mynd frá Eyþóri Kristjánssyni

Að fordrykk loknum bar Eyþór Kristjánsson yfirmatreiðslumeistari hjá Þremur Frökkum fram sitt stórglæsilega hlaðborð sem jafnvel þeim sem almennt hugnast ekki þorramatur þótti ljúffengt og girnilegt. Í eftirmat voru gómsætar, og ákaflega þjóðlegar, tertur að hætti Örnu kökumeistara.

Mynd frá Örnu Guðlaugu Einarsdóttur
Mynd frá Örnu Guðlaugu Einarsdóttur

Freyr Eyjólfsson kom frá París til að annast veislustjórn og auk þess skemmti Rögnvaldur ,,gáfaði” Rögnvaldsson með gamanmálum. Ræðumaður kvöldsins var Bernadette Brusa mannauðsstjóri EFTA. María Kristín Gylfadóttir (Mæja) kom að heiman og flutti hugleiðingar nýbrottflutts nýlendubúa.

Mynd frá Geir Þórhallssyni
Mynd frá Geir Þórhallssyni

Hinn sívinsæli Nýlendukór, með liðsstyrk Mæju og Önnu framreiðslumanns hjá Þremur Frökkum, steig á stokk og tók nokkur vel valin lög við dúndrandi lófatak. Minni karla flutti Geir Þórhallsson og minni karla var flutt af Þórunni Ragnarsdóttur. DJ Súrsson tryllti síðan lýðinn á dansgólfinu og lauk teitinu kl. 3. Hvað þá tók við veit ritstjórn heimasíðunnar ekkert um.

Atburður ársins – Þorrablót Íslandsfélagsins í Belgíu 2014

Flag-Pins-Iceland-Belgium Tuttugu ára afmælisblót Íslandsfélagsins verður haldið föstudaginn 7. febrúar í hinum rómaða veislusal Le Bouche à Oreille, Felix Hap Straat 11, 1040 Brussel.

Dagskráin hefst með fordrykk og ljúfum tónum kl. 19 og sest verður til borðs kl. 20. Að venju töfrar Eyþór Kristjánsson yfirmatreiðslumeistari hjá Þremur Frökkum fram sitt stórbrotna hlaðborð. Til að skola herlegheitunum niður verður boðið upp á brennivín, léttvín, bjór og gosdrykki eins og hver vill. Borðhaldi lýkur með kaffi og veislutertu frá Boulangerie Arna. Hinn stórkostlegi Freyr Eyjólfsson annast veislustjórn og kynnir ræðumann kvöldsins, hvers nafn verður ekki gefið upp. Nýlendukórinn stígur á stokk og tekur nokkur vel valin lög. Minni karla og kvenna verður á sínum stað, sem og happdrættið góða. Loks má ekki gleyma hinum óborganlega Rögnvaldi ,,gáfaða” Rögnvaldssyni, sem mun syngja og skemmta gestum eins og honum er einum lagið. Frá kl. 23 mun DJ Súrsson trylla lýðinn á dansgólfinu og gert er ráð fyrir að flestir verði búnir að fá nóg kl. 03 þegar veislulok verða.

Miðaverð er 75 evrur fyrir þá sem greitt hafa árgjald til félagsins 2013-2014, 75 evrur fyrir námsmenn og starfsnema yngri en 30, en 100 evrur fyrir aðra. Innifalið er happdrættismiði, fordrykkir, matur, brennivín, öl, léttvín og óáfengir drykkir til kl. 23, en þá hefst hefðbundin barþjónusta á vegum staðarhaldara.

Í fyrra var uppselt og komust færri að en vildu. Skráning er nú hafin og fer fram gegnum islandsfelag@gmail.com. Skráningu lýkur mánudaginn 3. febrúar og ber eigi síðar að greiða miðaverð inn á reikning félagsins: ING 310-1074359-73.

Munið; fyrstir koma, fyrstir fá. Óskir um sætaskipan eru vel þegnar um leið og pantað er.

Jólaball 2013

Ekki hefur verið mikið um viðburði á vegum félagsins þetta haustið en nú dregur að jólum og þá lifnar starfsemin eilítið við.

jólatrésdans 2013Sunnudaginn 8. desember 2013 var hið árlega nýlendujólaball haldið í Brussel. Á jólunum er haldið í hefðir og því var ballið auðvitað í húsakynnum EFTA eins og áður og allt skipulag með hefðbundnum hætti. Jólasveinarnir voru vitaskuld íslenskir þó þeir væru klæddir á útlenda vísu.

veitingar jólaball 2013

DSC_0111
Karim Leó
Nei, nei þetta eru ekki jólasveinar. Annar lagaði kaffið og hinn stjórnaði öllu.
Nei, nei þetta eru ekki jólasveinar. Annar lagaði kaffið og hinn stjórnaði öllu.

 

 

 

 

 

Góður rómur var gerður að ólátum sveinanna, gjöfum, söng viðstaddra svo og afburða veitingum.

Þeir sem aldur hafa til munu svo vonandi mæta á árlegt dansiball fullorðinna, þorrablótið sem haldið verður i febrúarbyrjun. Undirbúningur er löngu hafin svo blótið megi lukkast sem best.

Haustgolfmót Íslandsfélagsins 2013

Image

Laugardaginn 21. september var haustgolfmót Íslandsfélagsins haldið á Avernas golfvellinum. Þátttakendur voru 10, átta karlar og tvær konur. Þórir Þórisson kom alla leið frá Frakklandi til þess eins að taka þátt en hann er mjög liðtækur golfari. Sem fyrr var spilað samkvæmt Texas Scramble kerfinu svo ekki var óþægilega mikil pressa á þeim óvanari í hópnum, sem voru þó nokkrir.

Veðrið lék við golfarana og mönnum hljóp kapp í kinn í fallegu umhverfi og góðum félagsskap. Metnaðarfyllstu þátttakendurnir lýstu því yfir að móti loknu að æfingar fyrir næsta mót hæfust strax eftir helgina.

ImageImageSigurvegarar að þessu sinni voru þeir Jón Örn Brynjarsson og Stefan Lechler. Þeir sigruðu þó naumlega því þeir voru einungis 0,1 stigi hærri en félagarnir Einar Símonarson og Robert. Jón Örn Brynjarsson fékk ennfremur verðskulduð verðlaun fyrir framúrskarandi golfklæðnað. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd tónaði allt saman; kylfur, poki, buxur og síðast en ekki síst, takkarnir undir skónum. Aðrir golfarar geta svo sannarlega tekið dirfsku og litagleði Jóns Arnar sér til fyrirmyndar.

Golfmót Íslandsfélagsins í Belgíu “Æsland Ópen” 2013

Image
Keppnisfólkið

Sunnudaginn 9. júní fór fram hið árlega golfmót Íslandsfélagsins, “Æsland Ópen”, sem nú var haldið í fjórða sinn og fór fram á Avernas golfvellinum í Hannut. Mótið hófst kl. 13 og voru átta kylfingar skráðir til leiks. Leiknar voru níu holur samkvæmt “Texas Scramble” fyrirkomulaginu, en þá spila tveir og tveir saman, slá betri bolta síns teymis og halda sameiginlegt skor. Gafst þannig óvönum kylfingum á borð við Stóra Geir tækifæri til að spila með sér reyndari mönnum og hafa gagn og gaman af.

Image
Gulldrengirnir

Veitt voru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin. Er skemmst frá því að segja, að Stóri Geir Þórhallsson og Hafsteinn Hössler Einarsson hrepptu gullið, silfrið rann til Jóns Óskars Sólnes og Einars Símonarsonar, en Guðlaugur Bergmundsson og Kalli litli Einarsson urðu að láta sér bronsið nægja.

Image
Silfurdrengir og sá best klæddi.

Dís Sigurgeirsdóttir og Timme Dossing héldu tómhent heim. Jón Óskar var loks valinn best klæddi kylfingurinn, enda ekki seinna að vænna, maðurinn að flytja til Íslands og búinn að verja þúsundum evra í golffatnað undanfarin ár. Stóri Geir hreppti nándarverðlaunin með þokkalegu upphafshöggi á fimmtu holu, en samkvæmt mælingu eftirlitsdómara nam kúludruslan staðar 10 metrum frá holukjafti. Kalli litli var valinn efnilegasti kylfingurinn, og hafði þar betur í baráttunni við Timme danska, sem skildi ekki hinar flóknu íslensku kosningareglur og kaus óvart Kalla með háværu “ja tak skal du ha” þegar hann hélt að hann væri að þiggja bjór frá Kalla.

Bronsverðlaunahafar og "litli" mótstjórinn
Bronsverðlaunahafar og “litli” mótstjórinn

Mótstjóri var Guðlaugur Bergmundsson og veitti hann verðlaun við hátíðlega athöfn að móti loknu, en forseti afhenti nýkrýndum gullverðlaunahöfum farandbikar félagsins, til varðveislu í eitt ár. Áður en yfir lauk var drukkið minni Dalastúlkna, haft á orði að mikill missir væri að því að frú Katrín Magnúsdóttir væri ekki meðal þátttakenda, og ákveðið að blása til haustmóts í lok september eða byrjun október.

Vor- og sumardagskrá Íslandsfélagsins

Clervaux kastali
Clervaux kastali

Stjórn Íslandsfélagsins hefur nú ráðið ráðum sínum og framundan eru fjórir spennandi atburðir á vegum félagsins. Skráið hjá ykkur eftirfarandi atburði og dagsetningar. Allar nánari upplýsingar koma þegar nær dregur.

 

 
Sunnudagur 12. maí – minningarganga Þuríðar greifaynju Grimaldi (Uccle)

Laugardagur 1.(-2.) júní – vorferð á slóðir nóbelssskáldsins í Clervaux (Lúx)

Sunnudagur 9. júní – golfmót félagsins “Æsland Ópen” (áður auglýst)

Sunnudagur 16. júní – kvennahlaup og 17. júní hátíðahöld (Waterloo)

Með von um góðar undirtektir

Stjórnin

 

Mynd: http://commons.wikimedia.org/wiki/File:0_Clervaux_101021_CH2.JPG

Aðalfundur Íslandsfélagsins 8. mars 2013

Edward VII Emperor of India
Játvarður 7., keisari Indlands

Aðalfundur Íslandsfélagsins í Belgíu var haldinn í gær, föstudaginn 8. mars. Ellefu mættu á fundinn, sem er 10% aukning frá síðasta aðalfundi, og munar þar af til vill mestu að Þórir Ibsen sendiherra mætti með bænaskjal undiritað af 82 nýlendubúum, með áskorun til forseta að sitja áfram í að minnsta kosti eitt kjörtímabil.

Skýrslur félagsins og Íslenska skólans voru kynntar, farið yfir ársreikninga og þeir samþykktir einróma. Því næst var tekin fyrir lagabreytingartillaga frá forseta, þess efnis að fjölgað yrði í stjórn félagsins úr fimm í sex fulltrúa, og var sú tillaga einnig samþykkt.

Þessu næst var gengið til forsetakjörs, og þar sem enginn bauð sig fram var Jónas Jóhannsson endurkjörinn við dynjandi lófatak. Hrappur Magnússon og Karl Trausti Einarsson gáfu ekki kost á sér til endurkjörs í stjórn, en aðalfundur kaus eftirtalda til stjórnarsetu starfsárið 2013-2014: Rósu Rut Þórisdóttur, Maríu Kristínu Jónsdóttur, Geir Þórhallsson, Elínu Pálsdóttur og Elínu Önnu Jónasdóttur. Þannig sitja nú fjórar valkyrjur í stjórn, á móti tveimur körlum. Hrappi og Karli eru þökkuð fórnfús störf í þágu félagsins, en Karl mun þó koma áfram að félagsstarfinu, enda hann og Einar Símonarson einróma kjörnir endurskoðunarmenn félags og skóla árið 2013-2014.

Aðalfundur ákvað að félagsgjöld skyldu óbreytt, og eru þau því aðeins 50 evrur fyrir hvern félagsmann 18 ára og eldri, þó þannig að námsmenn og starfsnemar yngri en 30 ára greiða aðeins hálft gjald, eða 25 evrur.

Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum voru tekin fyrir ,,önnur mál”og meðal annars rætt um að ný stjórn myndi ekki hefja formlega innheimtu árgjalds fyrr en í september, samhliða því að starfsemi íslenska skólans færi af stað. Þá var gerður góður rómur að því að félag og skóli myndu blása til sameiginlegrar grillveislu fyrir alla nýlendubúa nú á vormánuðum, kynna starfsemi sína, og bjóða nýbúa formlega velkomna í nýlenduna okkar.

Undir lok fundar, þegar þreyta hafði sest í fundarmenn, stakk forseti upp á því að lögum félagsins yrði breytt á þann veg að í stað ,,forseta” kæmi ,,keisari”, sem sæti þá ævilangt við völd, en sú tillaga var felld með tíu atkvæðum á móti einu.

Þótti nú sýnt að fleira yrði ekki gert vitlegt á aðalfundi og var honum slitið við svo búið. Skýrsla stjórnar fylgir með hér í viðhengi svo og ítarlegri fundargerð forseta.

Ársskýrsla-2013  Aðalfundur2013 fundargerð